Konunglega norska sendiráðið á Íslandi og John Lindsay hf. buðu til makrílsveislu í Norræna húsinu í gær. Tilefnið var að hinn vinsæli norski Stabburet-makríll er kominn á markað hér á landi. Gestir smökkuðu að sjálfsögðu á makríl framreiddum með ýmsum hætti af Sveini Kjartanssyni, matreiðslumeistara veitingastaðarins Aalto í Norræna húsinu. Cecilie Landsverk, sendiherra Noregs á Íslandi, hélt stutta tölu og fagnaði því að norskur makríll væri nú loks fáanlegur í verslunum á Íslandi og sló á létta strengi varðandi allt sem gengið hefur á í samskiptum þjóðanna vegna makrílsins.
„Salan á Stabburet-makrílnum hefur farið mjög vel af stað og ljóst að landsmenn kunna vel að meta makrílinn enda er hann bragðgóður og hollur. Hægt er að borða makrílinn beint úr dós en hann er líka bragðgott álegg ofan á brauð eða í tortillu og svo í ýmiss konar salöt svo dæmi séu tekin. Þetta er bragðgóður heilsubiti,“ segir Stefán S. Guðjónsson, forstjóri heildvöruverslunarinnar John Lindsay, sem flytur makrílinn inn.