Það var góð stemmning þegar Sigurður Sævar myndlistarmaður opnaði sýningu á verkum sínum í Smiðjunni Listhúsi að Ármúla 36 um helgina. Vel á þriðja hundrað gestir komu á opnunina og var góður rómur gerður að verkum listamannsins. Sigurður Sævar hefur vakið athygli síðustu ár fyrir viðamiklar sýningar og fjölbreytt verk þrátt fyrir ungan aldur en hann er 21 árs.
Sigurður heillaðist af myndlist einungis sjö ára gamall er hann fór á sýningu Ólafs Elíassonar, Frostvirkni, í Listasafni Reykjavíkur árið 2004. Í september 2007 tók hann ákvörðun um að gerast myndlistarmaður eftir að hafa fengið málningu, pensla og striga í 10 ára afmælisgjöf.
„Með nokkrum sanni má því segja að myndlistin hafi átt hug minn allar götur síðan. Ég hélt mína fyrstu myndlistarsýningu 13 ára gamall á menningarnótt í glersal Höfðatorgs í samstarfi við Simma og Jóa, stofnendur Hamborgarafabrikkunnar. Ég hef síðan þá staðið fyrir og tekið þátt í fjölda sýninga hér á landi auk þess sem ég var fenginn 18 ára gamall til að mála 13 olíumálverk fyrir ODDSSON hótelið,“ segir Sigurður Sævar. Sýningin í Smiðjunni verður opin til 28. október.