Á dögunum fögnuðu Ninna Stefánsdóttir og Íris Dögg Einarsdóttir útgáfu sinnar fyrstu bókar, Macramé - hnútar og hengi, hjá Hlín Reykdal úti á Granda. Margt var um manninn í útgáfuboðinu eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Valdimar og Örn Eldjárn fluttu nokkur lög í veislunni við góðar undirtektir gestanna.
Macramé er einföld, falleg og skemmtileg handavinna sem allir geta lært og notað til að fegra heimili sín. Það eina sem þarf er áhugi, iðnar hendur, kaðlar og skæri. Í bókinni er farið yfir undirstöðuhnúta í macramé og sýnt skref fyrir skref hvernig hægt er að hnýta glæsileg vegghengi og dásamleg blómahengi. Einnig er farið í gegnum grunnatriði náttúrulegrar jurtalitunar og veglegur hugmyndakafli gefur innblástur að fjölmörgum macramé-verkefnum.
Tvíeykið Ninna Stefánsdóttir og Íris Dögg Einarsdóttir hafa þekkst lengi enda eru þær mágkonur en hugmyndin að bókinni kviknaði þar sem þær sátu í hengistólum í Gvatemala en svo heppilega vildi til að í næsta hengistól dólaði íslenskur bókaútgefandi sér. Tíu mánuðum seinna var bókin komin í heiminn. Þær eru fagurkerar fram í fingurgóma og deila áhuga á fallegum hlutum og heimilum. Í samstarfi þeirra má finna fullkomið jafnvægi; Ninna hnýtir af eindæma ástríðu og Íris fangar verkefnin á undurfallegar myndir.
Íris Dögg lærði margmiðlunarhönnun og ljósmyndun og hefur starfað sem ljósmyndari í fjölda ára. Hún hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum en áhugasvið hennar hefur leitt til þess að hún hefur aðallega tekið myndir sem tengjast tísku og auglýsingum.
Ninna er stofnandi og eigandi MARR. Hún handgerir macramé-vörur fyrir einstaklinga og fyrirtæki og auk þess kennir hún áhugasömum að hnýta með macramé á vinsælum námskeiðum.