Íslenska flugfélagið Play fagnaði því með pomp og prakt að vera búið að ná mörgum góðum áföngum upp á síðkastið. Einn af þeim var jómfrúarferð félagsins sem farin var í gær. Teitið var haldið á Nauthóli þar sem boðið var upp á rauða kokkteila, girnilegan mat og skemmtilega stemningu.
Birgir Jónsson forstjóri Play var sérlega ánægður og í ræðu sinni sagði hann að það væri stór áfangi að koma flugfélaginu á koppinn því ferðalagið að jómfrúarferð hefði verið langt og strangt. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hélt einnig tölu og sagði að það væru gleðifréttir fyrir fólk sem byggi á eyju að vera loksins komið með tvö flugfélög, sem myndi hafa jákvæð áhrif fyrir landsmenn. Sjálf játaði hún að hafa ekki farið til útlanda í 16 mánuði og hlakkaði mikið til þess að komast til heitari landa.
Eins og sjá má á myndum Kristins Magnússonar var afar góð stemning í boðinu og mikið fjör enda fólk sérlega partíþyrst eftir langa og stranga veirumánuði.