Hælið eftir Emil Hjörvar Petersen, fyrsta prentaða bók Storytel á Íslandi, er komin út. Af því tilefni hélt hann útgáfuhóf í Húsi máls og menningar.
Hljóðbókin kom út 30. september síðastliðinn og hefur setið í efsta sæti á topplista íslenskra hljóðbóka síðan þá en í gær kom prentaða útgáfan í verslanir. Útgáfa bókarinnar markar tímamót því Storytel gefur hana einnig út á prenti og er þar með þátttakandi í jólabókaflóðinu.
„Ég er að sjálfsögðu hæstánægður með viðtökurnar og feginn því að bókin sé komin út og það á öllum formum. Þetta er saga sem hefur verið mér hugleikin lengi og ég gæti ekki beðið um betra samstarf um útgáfu,“ segir Emil Hjörvar Petersen.
Hælið er hrollvekjandi skáldsaga með sögulegu ívafi, sögusviðið er gamla Kópavogshælið, sem bæði hefur verið berklahæli og holdsveikraspítali, og svæðið við botn Kópavogs þar sem á öldum áður var þingstaður og sakamenn meðal annars teknir af lífi. Ugla, Leifur og unglingar þeirra tveir flytja í nýtt hverfi í námunda við hælið og allt virðist leika í lyndi. Fljótlega fer að bera á óhugnaði sem virðist tengjast skuggalegri fortíð staðarins.