Það var einstök stemning í Máli og menningu þegar Júlía Margrét Einarsdóttir fagnaði útkomu bókar sinnar, Guð leitar að Salóme. Um er að ræða skáldsögu um Salóme sem týnir kettinum sínum rétt fyrir jólin og í örvæntingarfullri leit sinni venur hún komur sínar á Kringlukrána.
Hún sest við barinn og skrifar bréf þar sem hún opinberar sig í fyrsta sinn. Bréfin eru stíluð á hina dularfullu Helgu sem vann með Salóme í versluninni Betra lífi tíu árum fyrr. Með lifandi frásagnargleði afhjúpar hún sjálfa sig og leitar skilnings á fjölskyldusögunni, ástinni og sálarstríði ungrar konu í grátbroslegum smábæjarharmleik þriggja ættliða á Akranesi. Við sögu koma spákona í Fossvogi, drykkfelldur organisti og auðvitað örlagavaldurinn Helga. Hér er á ferðinni martraðarkennd uppvaxtar- og ástarsaga úr rammíslenskum veruleika.
Í útgáfuboðinu kom Þórir Georg og spilaði nokkur vel valin lög áður en Júlía Margrét las valinn kafla upp úr bókinni og sagði frá henni. Að sögn eins gestsins í boðinu varð ekki þverfótað fyrir fólki með bros á vör því höfundurinn er þekktur fyrir orðsnilld sína og kímnigáfu.
„Svo var formlegri dagskrá lokið og allflestir löbbuðu út í nóvemberkvöldið með nokkur árituð eintök frá stjörnu kvöldsins fyrir sig og sína sem eiga eftir að enda í jólapökkunum heyrðist mér – enda tilvalin undir jólatréð í ár,“ segir Birgir Marteinsson lögfræðingur sem var á meðal gesta.
Júlía Margrét Einarsdóttir er með MA-gráðu í ritlist frá Háskóla Íslands og MFA-gráðu í handritagerð frá New York Film Academy. Hún hefur áður sent frá sér nóvellu og ljóðabók og sló eftirminnilega í gegn með sinni fyrstu skáldsögu, Drottningunni á Júpíter (2018). Samhliða skrifum starfar Júlía við menningarblaðamennsku og dagskrárgerð.