Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi opnaði ljósmyndasýningu um helgina á Hafnartorgi. Sýninguna kallar Sigurjón Horft um öxl. Þegar hann er spurður út í sýninguna segir hann að hún hafi verið leið til að klára ákveðið tímabili í lífi sínu.
„Ég var að hreinsa harða disk heilans til að geta haldið áfram því að verkin eru ekki kláruð fyrr en komin eru í loka „umgjörð“. Hluti af því að klára verkin er að prenta þau út, setja í ramma og hengja upp. Annars væri ég á Instagram,“ segir Sigurjón og bætir því við að sýningin sé hluti af sköpunarferlinu.
Þessi sýning er söguleg því Sigurjón hefur aldrei verið með ljósmyndasýningu áður en viðurkennir að hann hafi gengið með það í maganum lengi.
„Þessar myndir eru í raun hluti af dagbók minni undan farin 10 ár,“ segir hann.
Þegar Sigurjón er spurður að því hvernig fjölskylda hans hafi tekið þessu segir hann að
„Fólkið mitt og þeir sem standa mér nærri eru ekki alveg hlutlausir í þessu máli. En sannast sagna voru viðtökur fram úr björtustu vonum. Ég var þó búinn að hófstilla þær,“ segir hann.
Það er ekki hægt að tala við Sigurjón á þessum árstíma nema spyrja hann um jólin og hans jólahefðir. Hann ætlar að verja jólunum í Lissabon í Portúgal ásamt fjölskyldu sinni.
„Það er hryggur á aðfangadag hvar sem við erum stödd í heiminum,“ segir hann.
Þegar hann er á Íslandi yfir jól og áramót segir hann að það sé ómissandi að horfa á Skaupið en hann sleppir því þegar hann er erlendis.
„Skaupin síðustu ár hafa verið frábær,“ segir hann.
Hvaða væntingar ertu með fyrir 2022?
„Ég stilli væntingum í hóf og skipti niður um einn gír eða svo. Svo vil ég sinna barnabörnum og fjölskyldu betur,“ segir hann.