Margir biðu spenntir eftir frumsýningu Örlagaþráða í Hörpu eins og myndirnar sýna og fögnuðu Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu, Kristján Jóhannsson óperusöngvari og Sigurlaug Margrét Jónasdóttir útvarpskona, svo einhverjir séu nefndir, því að nú er hægt að sækja menningarviðburði þar aftur. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Herdís Anna Jónasdóttir óperusöngkonur voru einnig á frumsýningunni og skemmtu sér vel.
Örlagaþræðir er verk þar sem söngur og dans sameinast í túlkun á ljóðum Mariu Stuart og Mathilde Wesendonck. Robert Schumann samdi tónlistina við ljóð Mariu en Richard Wagner við ljóð Mathilde. Umfjöllunarefni kvennanna eru ólík, en þær lifðu á ólíkum tímum, en áttu þó mjög margt sameiginlegt. Báðar voru þær fullar af ástríðu og þrótti en örlaganornirnar spunnu þeim ólík örlög. Hvorug náði að lifa frjáls en báðar voru leiksoppar örlaganna. Maria var tekin af lífi eftir valdatafl og pólitískar tilfæringar og Mathilde varð að beygja sig undir væntingar samfélagsins og fórna eldheitri ást Wagners.
Þær Auður Gunnarsdóttir sópran og Lára Stefánsdóttir dansari stóðu sig vel í verkinu og einnig Bjarni Frímann Bjarnason sem sá um undirleik á píanó. Leikmynd og búningar voru í höndum Ástu V. Guðmundsdóttur og sá Níels Th. Girerd um aðstoð við sviðsetningu. Jóhann Bjarni Pálmason sá um lýsingu verksins.