Það var einstök stemning í Safnahúsinu við Hverfisgötu þegar Helga Björnsson fatahönnuður og tískuteiknari sýndi verk sýn í tengslum við HönnunarMars.
Yfir 300 manns mættu til að sjá sýninguna og myndaðist skemmtistaðaröð fyrir utan Safnahúsið því aðsóknin var svo mikil. Margir þurftu frá að hverfa.
Sýndir voru silkikjólar eftir Helgu Björnsson og kjólar úr Svansvottuðum pappír frá Odda sem Helga gerði upp úr skissum i í samvinnu við Tinnu Magg og Elsu Maríu Blöndal.
Aðstoðarstílisti var Agnieszka Baranowska. Fyrirsætur, leikkonur, leikarar og dansarar tóku þátt í gjörningnum, meðal annars Svandís Dóra Einarsdóttir, Magga Stína og ofurfyrirsæta níunda áratugarins Brynja Sverrisdóttir sem sýndi mikil tilþrif.
Helga Björnsson var búsett í París til fjölda ára. Þar vann hún í þrjá áratugi sem „haute couture“ fatahönnuður hjá hátískuhúsinu Louis Féraud. Hinn leikræni og lifandi stíll Helgu vakti mikla athygli fyrir litskrúðugar og mynstraðar flíkur sem prýddu tískupalla Parísarborgar.
Helga hefur einnig hannað fatnað og fylgihluti fyrir ýmis fyrirtæki, íslensk og erlend. Hún hefur hannað búninga fyrir ýmis leikhúsverk í Þjóðleikhúsinu og Íslensku Óperunni og hlaut Grímuverðlaun fyrir búninga í Íslandsklukku Halldórs Laxness.
Helga Björnsson hannar nú undir eigin nafni kjóla, efni, slæður, fatnað og húsbúnað og tveir stólar með efni frá Helgu voru einnig til sýnis í Safnahúsinu.
Á viðburðinum var boðið upp á freyðivín frá Franska sendiráðinu, kokkteila frá Og Natura og sérhannaðar veigar eftir Áslaugu Snorradóttur ljósmyndara og matarlistamann.
Tónlistin við sýninguna var eftir Kurt Uenala sem hefur unnið mikið með sveitinni Depeche Mode, Black Rebel Motorcycle Club og Kaktusi Einarssyni meðal annarra.