Það var mikil stemning í Hvalasafninu úti á Granda þegar athafnamaðurinn Eyþór Arnalds sló í stóreflis partí til að fagna margvíslegum áföngum í lífinu. Aðalfagnaðarefnið var þó líklega að hann væri hættur í borgarstjórn. Í dag einbeitir hann sér að fyrirtækjum sínum í ferðaþjónustu, enda íslenska ferðasumarið farið að blómstra á nýjan leik.
Gestirnir voru fjölbreyttur hópur úr pólitík, atvinnulífi, listageira og ferðaþjónustu. Vel var gert við gestina, þar sem veittir voru gómsætir drykkir af ýmsu tagi. Einnig voru léttir réttir frá nokkrum bestu veitingastöðum borgarinnar í boði víðs vegar um salinn innan um steypireyða og hnúfubaka, búrhveli og háhyrninga. Dj Bogi sá svo um að engum leiddist og dældi tónlist í mannskapinn. Eins og sjá má á myndunum er líf eftir setu í borgarstjórn Reykjavíkur.