Glatt var á hjalla þegar listaverkið Læðingur eftir Hrafnhildi Arnardóttur var opnað í heitu sjóböðunum í Hvammsvík. Hrafnhildur er orðin Kjósverji og á sumarhús í Hvalfirði. Það er því ekki langt fyrir hana að sækja sjóböðin.
Skúli Mogensen og Hrafnhildur eru aldagamlir vinir og hann mikill aðdáandi af verkum hennar.
„Það er mikill heiður að Hrafnhildur hafi verið tilbúin að vinna staðbundið verk með okkur í Hvammsvík og við gætum ekki verið ánægðari með útkomuna. Við höfum lagt mikla áherslu á að vinna með innlendum hönnuðum og listafólki í að skapa einstaka upplifun fyrir gesti okkar,“ segir Skúli Mogensen stofnandi Hvammsvíkur Sjóbaða.
Sjóböðin í Hvammsvík í Hvalfirði opnuðu nýlega en verkefnið átti sér langan aðdraganda en gamla náttúrulaugin í fjöruborðinu í Hvammsvík hefur verið vinsæl á meðal ferðamanna, sjósundsfólks og göngugarpa í tugi ára. Með opnum sjóbaðanna hefur laugunum fjölgað og eru nú átta talsins með mismunandi hitastigi.
Hönnun sjóbaðanna tók mið af náttúrunni og sögunni en þjónustuhúsið er byggt á gömlum braggagrunni frá stríðsárunum, einum af mörgum sem leynast í Hvammsvíkinni. Unnið var náið með innlendum hönnuðum og listamönnum. Má þar nefna ásamt Hrafnhildi, Shoplifter; Sonju Bent hjá Nordica Angan sem vann ilm og sápur út frá nærumhverfi Hvammsvíkur og Bjarna Viðar Sigurðsson sem vann keramik þar sem sandur Hvammsvíkurfjörunnar er notaður í glerunginn.