Listakonan Sísí Ingólfsdóttir hefur ekki undan að sauma út afsakanir og fyrirgefningar fyrir Íslendinga. Sísi opnaði myndlistarsýningu í tískuversluninni Andrá á Laugavegi um síðastliðna helgi.
Afsakið allt draslið, afsakið hvað ég lagði bílnum illa, fyrirgefðu hvað ég er illa til höfð og fleiri snjallar afsakanir saumar hún út í listverk sem eru svo eftirsótt að það er biðlisti eftir þeim. Sísí hefur verið upptekin að kynjahlutverkum og birtingarmyndum þeirra og sögu femínismans ásamt því að skoða móðurhlutverkið út frá ólíkum sjónarhornum og oftar en ekki á húmarískan hátt.
Sísí vinnur þvert á listform, allt frá gjörningum yfir í keramik, textaverk, handverk, innsetningar og vatnslitun. Aðferðirnar eru því mismunandi en ferlið er alltaf sambærilegt, sjálfsævisöguleg nálgun og oft með tengingu við listasöguna. Sísí nálgast viðfangsefnin sama hversu beitt þau eru af móðurlegri mýkt og oftar en ekki verður einhverskonar samsláttur á opinberu- og einkarými listamannsins. Það gerir hugleiðingar hennar oft eitthvað sem sýningargestir geta tengt við líkt og útsaumuðu Afsakið verkin hennar. Eitt af því sem hefur háð framgangi kvenna í gegnum tíðina er þörfin fyrir að afsaka sig og með verkum sínum bendir hún á fáránleika þess á hnyttinn hátt.