Allt frægasta fólk landsins var saman komið í Smárabíó á miðvikudaginn þegar kvikmyndin Villibráð var frumsýnd. Á frumsýningunni mátti sjá allt frá listafólki yfir í áhrifavalda, stjórnmálafólk og fólk í viðskiptalífinu.
Leikstjórinn Elsa María Jakobsdóttir skrifar handritið að Villibráð ásamt Tyrfingi Tyrfingssyni. Mikið var hlegið í Smáralindinni enda myndin einstaklega fyndin.
Villibráð fjallar um sjö vini til margra ára sem í matarboði hjá hjónum í hópnum fara í stórhættulegan samkvæmisleik. Þau leggja farsímana sína á borðið og fallast á að öll skilaboð sem berast verði lesin upphátt fyrir allan hópinn, myndir sýndar öllum og símtöl spiluð upphátt. Með hlutverk vinanna fara Aníta Briem, Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Nína Dögg Filippusdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.