Stórleikkonan Jodie Foster mætti á frumsýningu í Bíó Paradís í gærkvöldi. Þar var fransk-íslenska kvikmyndin Grand Marin Woman at Sea sýnd í tilefni af frönsku kvikmyndahátíðinni sem fram fer um þessar mundir. Foster var ekki ein á ferð því vel var mætt en á meðal gesta var hin rússnesk-franska Dinara Drukova sem er leikstjóri myndarinnar.
Woman at Sea gerist við Íslandsstrendur og er framleidd af Benedikt Erlingssyni og í aukahlutverkum eru meðal annars Björn Hlynur Haraldsson og Hjörtur Jóhann Jóhannsson. Hún fjallar um Lili sem hefur yfirgefið allt sem hún þekkir til að elta draum sinn um að ferðast um heiminn og veiða í Norðursjónum. Myndin var að miklu leyti tekin upp á Íslandi.
Franska kvikmyndahátíðin hófst í Bíó Paradís á föstudaginn síðasta og lýkur um næstu helgi en 11 myndir eru sýndar á hátíðinni. Hátíðin er skipulögð af sendiráði Frakklands á Íslandi, Alliance Francaise í Reykjavík og Bíó Paradís.