Samtökin Samhjálp fögnuðu 50 ára afmæli sínu á þriðjudaginn var en stofndagur var 31. janúar 1973. Samhjálp var stofnuð á 50 ára afmælisdegi Einars J. Gíslasonar í Betel, sem lét allar afmælisgjafir renna til Samhjálpar. Edda Jónsdóttir, barnabarn Einars heitins, er framkvæmdastjóri Samhjálpar í dag. Samtökin halda úti meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal, nytjamarkaði og kaffistofu fyrir þá sem á þurfa að halda og ráku á tímabili gistiskýli fyrir heimilislausa.
Það var margt um manninn í afmælisveislunni. Edda bauð gesti velkomna og Eliza Reid forsetafrú hélt stutt erindi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Reykjavík lét sig ekki vanta en með honum í för var Þórir Kjartansson húsvörður Ráðhússins. Það var vel við hæfi að Þórir kæmi með í afmæli Samhjálpar því hann á samtökunum líf sitt að launa.
Fyrir tíu árum glímdi hann við fíknivanda, var heimilislaus og svaf í bílakjallara Ráðhússins. Með hjálp Samhjálpar náði hann að losa sig úr viðjum fíknarinnar og eignaðist gott líf með hjálp góðs fólks. Sagan hans hreyfði við fólki enda er hún kraftaverki líkust.