Það var góð stemning í verslun 66°Norður við Hafnartorg þegar samstarfsverkefni þeirra við danska tískumerkið GANNI var fagnað með nýrri línu. Margir lögðu leið sína í boðið eins og til dæmis gömlu vinirnir Andrea Magnúsdóttir fatahönnuður og Sölvi Snær Magnússon eigandi kaffihússins Landromat. Þar var líka Kristín Pétursdóttir leikkona og flugfreyja og Sunneva Eir Einarsdóttir viðskiptafræðingur og áhrifavaldur.
Tískulínan var kynnt á tískuvikunni í Kaupmannahöfn í ágúst á síðasta ári. Flíkurnar í línunni eru hannaðar og framleiddar með sjálfbærni í huga. Innblásturinn í hönnuninni byggir á Kríu línunni sem 66°Norður framleiðir ásamt áherslum GANNI á fatnað fyrir daglegt líf. Litavalið er undir áhrifum frá Íslandi en þar má finna skæra liti eins og gulan, grænan, bláan sem er skírskotun í norðurljósin og íslenska náttúru.
Eins og sést á myndunum var sérlega mikið fjör í teitinu!