Sólin skein og gleðin var við völd í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn, þegar sýningin Samband/Connection á 3 Days of Design var opnuð. Á sýningunni er að finna framúrskarandi vörur eftir níu íslenska hönnuði sem eiga það sameiginlegt að hafa hannað vörur sem eru þróaðar, framleiddar og seldar í Skandinavíu. Sýningin er framleidd af Epal í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Íslandsstofu og sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn.
Við opnun sýningarinnar benti Eyjólfur Pálsson, stofnandi Epal, á að skandínavísk hönnun hafi lengi verið uppspretta innblásturs fyrir íslenska hönnuði en nú sé íslensk hönnun komin á það stig að vera sjálf uppspretta innblásturs og virkur hluti af skandinavísku hönnunarsenunni. Þá hafi samnorræn samvinna borið mikinn ávöxt undanfarin ár.
„Allir íslensku hönnuðirnir sem sýna hér í dag hafa hannað söluhæstu vörur í samvinnu við skandinavískt hönnunarhús. Fuglinn hans Sigurjóns Pálssonar hefur selst í 600.000 eintökum fyrir Normann Copenhagen, sem er umtalsvert meira en fólk er á Íslandi, og Notknot hnútapúðinn eftir Ragnheiði Ösp Sigurðardóttur er söluhæstur hjá Design House Stockholm,“ segir Eyjólfur.
Skýr hönnunarstefna ber árangur
Eyjólfur benti einnig á að hönnun væri faggrein sem þurfi stuðning á fyrstu stigum til að blómstra í þann nýsköpunariðnað sem skapar mikil verðmæti og gagnast okkur öllum, og þá skipti skýr hönnunarstefna miklu máli: „Dönsk hönnun varð ekki að því öfluga vörumerki sem hún er í dag af sjálfu sér. Frægð hennar hefur dafnað út frá skipulagðri vinnu sem lögð var fram í skýrri hönnunarstefnu danskra yfirvalda. Stefnu sem hefur fært hönnun inn í almannarýmið, í opinberar byggingar, samkomustaði, í sjónvarp og kvikmyndir. Með markvissri vinnu hefur dönsk hönnun orðið að einni öflugustu og verðmætustu menningarafurð landsins.“
„Ég hef verið talsmaður og stoltur stuðningsmaður íslenskrar hönnunar í yfir fjóra áratugi. Og í fjóra áratugi hef ég barist fyrir því að íslensk yfirvöld setji sér álíka metnaðarfulla hönnunarstefnu, sem mun vernda, styðja og bæta íslenska hönnun, stuðla að nýsköpun, auka sjálfbærni og bæta líf okkar. Við þurfum líka að sýna það besta af íslenskri hönnun í opinberum byggingum og rýmum, sendiráðum og skólum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Við verðum að sýna og styðja við hönnun. Hönnun snýst ekki bara um fagurfræði. Hún snýst um að leysa vandamál, bæta virkni og skapa lífsgæði. Fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild.“