Gleðin var í hávegum höfð síðastliðinn föstudag þegar Sigríður Hrund Pétursdóttir, fjárfestir og fyrrverandi formaður FKA, og Baldur Ingvarsson húsasmíðameistari buðu til veislu á veitingastaðnum Flóru í Grasagarðinum í Reykjavík.
Tilefnið var 20 ára endurnýjun brúðkaupsheita þeirra og bar veislan heitið Lifi lífið, ljósin og ástin og setti fram lífshlaup þeirra hjóna til heiðurs.
Veislustýra og listrænn skipuleggjandi var Svanlaug Jóhannsdóttir listakona og voru fjölbreytt sýningaratriði borin fram til að búa til skynjunarferðalag fyrir gestina. Sigríður Soffía Níelsdóttir listakona var með gjörning ásamt Ásu Kollu DJ og listasýning varpaði ljósi á nokkur helstu viðfangsefni þeirra hjóna í gegnum tíðina.
Gleðin hjá hjónunum hélt síðan áfram daginn eftir með nánustu vinum og fjölskyldu þar sem vígsla fór fram við Öxarárfoss af hendi sr. Jónu Hrannar Bolladóttur. Brúðkaupsgestir fengu svo eftirmiðdagsverð á veitingastaðnum Hvönn í Skálholti og að lokum var haldin veisla fram á nótt á Hótel Geysi við mikinn fögnuð viðstaddra.