Tekin hefur verið ákvörðun um að breyta nafni skemmtistaðarins í Bankastræti fimm, sem þekktur hefur verið sem B5, í B. Ákvörðun er tekin í kjölfar þess að lögbann var lagt á notkun heitisins B5.
„Okkur urðu á mistök þegar við gáfum staðnum nafn eftir eigendaskiptin í sumar, en heitið B5 reyndist í eigu einkahlutafélags. Síðan fór lögbannskrafan fram hjá mér þannig að málið rataði í þetta lögbannsferli. Þetta þykir mér miður og bið ég hlutaðeigandi afsökunar á því,“ segir Sverrir Einar Eiríksson, sem ásamt unnustu sinni, Vestu Minkute, tók yfir rekstur Bankastrætis Club í byrjun júní.
Yfirlýst markmið nýrra rekstraraðila var að endurvekja stemninguna sem áður einkenndi B5 og gera hann aftur að besta skemmtistað borgarinnar. Breytingum sem gerðar hafa verið á staðnum hefur verið afar vel tekið og er hann nú með vinsælli viðkomustöðum í skemmtanalífi Reykjavíkur.
„Við erum því ekkert að flækja hlutina þegar við breytum nafni staðarins og fellum bara niður fimmuna í heitinu. Hér eftir nefnist hann B. Annað er óbreytt og gleðin áfram við völd á besta stað í bænum í Bankastræti 5,“ segir Sverrir.
Um þessar mundir er unnið að endurbótum á staðnum. Hljóð- og ljósakerfi verða endurnýjuð og úrvalið á barnum verður stóraukið. Lagt verður upp með gott og vandað úrval af vínum fyrir flöskuborð. Sverrir og Minkute hafa ráðið Arnar Gauta Sverrisson innanhússráðgjafa til þess að endurhanna staðinn. Þau segja að það sé gert til þess að bæta upplifun gestanna. Þau lofa því líka að á staðnum verði boðið upp á bestu og vinsælustu plötusnúðana og lofa gæðakokteilum á góðu verði.
„Heilsa og öryggi gesta okkar er algjört forgangsmál,“ segir Sverrir og bætir því við að auk plötusnúða verði vinsælustu tónlistarmenn landsins fengnir til að spila á staðnum.
Sverrir hefur áður látið til sín taka í viðskiptalífinu, bæði heima og erlendis.
„Ég hef í nærri aldarfjórðung stundað ýmiss konar viðskipti, þó mest fasteignaviðskipti hér og í Bretlandi,“ segir Sverrir sem auk þess hefur komið að kaupum og sölu á gulli og demöntum. Hann hefur stundað lánastarfsemi, veitinga- og gistihúsarekstur, rekið starfsmannaleigu og fleira.