Það var góð stemning í Blómavali á fimmtudaginn var þegar því var fagnað að verslunin hefur gengið í endurnýjum lífdaga. Mæðgurnar Helga Margrét Agnarsdóttir, lögfræðinemi og áhrifavaldur, og Guðrún Kjartansdóttir lyfjafræðingur settu svip sinn á teitið því þær klæddust eins peysum. Um er að ræða prjónapeysur í bleikum, hvítum og appelsínugulum lit. Peysurnar fást í Vero Moda.
Dóra Júlía Agnarsdóttir, systir Helgu Margrétar og dóttir Guðrúnar, var plötusnúður og var hún í svipaðri peysu og mæðgurnar – þó ekki alveg eins.
Skemmtikrafturinn Eva Ruza var veislustjóri í boðinu og sá til þess að engum leiddist. Boðið var upp á freyðivín og fór enginn tómhentur heim.
Blómaval er stofnað árið 1970 og var upphaflega í Sigtúni. Eftir að verslunin sameinaðist Húsasmiðjunni flutti aðalverslunin í nýtt sérsniðið húsnæði við Skútuvog og hefur verið þar til húsa síðan 2005. Í fyrra hófust endurbætur á Blómavali. Garðskálinn var endurnýjaður og úrval gjafavöru aukið.
Eins og sjá má á myndunum féllu þessar breytingar vel í kramið hjá gestunum.