Fjölmenni var á forsýningu gamanmyndarinnar Northern Comfort sem haldin var í Háskólabíói í gær. Kvikmyndin hlaut góðar viðtökur hjá bíógestum og var hlegið dátt og klappað að sýningu lokinni.
Northen Comfort er svört kómedía um hóp fólks á flughræðslunámskeiði þar sem ferðinni er heitið til Íslands. Hún skartar leikurum á borð við Lydiu Leonard, Rob Delaney, Timothy Spall, Sverri Gudnasyni og Svandísi Dóru Einarsdóttur.
Leikstjóri myndarinnar er Hafsteinn Gunnar Sigurðsson en hann er einnig einn af handritshöfundum ásamt þeim Halldóri Laxness Halldórssyni, betur þekktur sem Dóri DNA, og Tobias Munthe.
Northern Comfort er væntanleg til sýninga í Smárabíó föstudaginn 15. september.