Heimildarmyndin The Day Iceland Stood Still eða Dagurinn sem Ísland stöðvaðist var frumsýnd á dögunum fyrir troðfullum sal á hinni árlegu RIFF-kvikmyndahátíð sem stendur nú sem hæst.
Myndin fjallar um Kvennafrídaginn þegar 90% íslenskra kvenna lögðu niður störf þann 24. október 1975 og lömuðu tímabundið íslenskt atvinnulíf til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og krefjast sömu réttinda og launakjara og karlar. Með því komu þær Íslandi í fremstu röð í alþjóðlegri jafnréttisbaráttu.
Salurinn var þétt setinn af góðum gestum. Pamela Hogan og Hrafnhildur Gunnarsdóttir, leikstjórar heimildarmyndarinnar, létu sig að sjálfsögðu ekki vanta á sýninguna. Þá mættu Guðni Th. Jóhannesson forseti og Eliza Reid forsetafrú einnig á viðburðinn.