Það var gestur í hverju sæti þegar verkið Saknaðarilmur var frumsýnt í Kassa Þjóðleikhússins á fimmtudagskvöldið. Um er að ræða leikrit eftir leikkonuna og leikstjórann, Unni Ösp Stefánsdóttur, sem byggt er á bókum skáldsins Elísabetar Jökulsdóttur, Saknaðarilmi og Aprílsólarkulda sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Elísabet Jökulsdóttir var á meðal gesta. Þar var líka nýi borgarstjórinn í Reykjavík, Einar Þorsteinsson og eiginkona hans, Milla Ósk Magnúsdóttir sem er aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra. Fjölskylda Elísabetar mætti en litla frænka hennar, Vera Illugadóttir skærasta stjarna Rásar 1 og faðir hennar, Illugi Jökulsson voru á meðal gesta og líka Unnur Þóra Jökulsdóttir, stóra systir Elísabetar sem mætti með eiginmanni sínum Árna Einarssyni.
Unnur Ösp leikur Elísabetu Jökulsdóttur í sýningunni og myndu einhverjir segja að þetta væri hennar besti leikur hingað til. Eiginmaður hennar, Björn Thors, leikstýrir verkinu en hjónin hafa unnið mikið saman í gegnum tíðina. Þau gerðu sýninguna Vertu Úlfur sem fjallaði um veikindi Héðins Unnsteinssonar. Þar lék Björn Héðinn og Unnur leikstýrði en í Saknaðarilmi snúast hlutverkin við.
Verkið er áhrifaríkt og sorglegt, en líka fyndið og óþægilegt. Kannski er það bara svolítið eins og lífið er, óútreiknanlegt með hæðum og lægðum. Fólk er hugsanlega mishreinskilið um hugsanir sínar og tilveru og þess vegna er fólk almennt ekki að tala um kynfæri foreldra sinna við annað fólk.
Stórum spurningum er varpað fram eins og til dæmis hvort áföll geti gert okkur veik? Erfist þjáning á milli kynslóða? Hver og einn verður að svara þeim spurningum innra með sér.
En hvernig verður lítil draumlynd stúlka að manísku skáldi sem verður heltekin af ást á manni sem glímir við fíknisjúkdóm. Hvernig tekst henni að sogast inn í myrkrið? Var enginn til staðar fyrir hana? Þessi litla draumlynda stúlka er brotin og brjáluð en í Saknaðarilmi er sögð saga af tengslum og tengslaleysi foreldra og barna.
Í Saknaðarilmi gerir fullorðin skáldkona upp móðurmissi og gerir upp tilfinningar sínar til móður sinnar. Hún neyðist til að horfast í augu við erfiða æsku, föðurmissi, geðveiki og ástina. Elísabet var dóttir Jökuls Jakobssonar skálds sem féll frá þegar Elísabet var 19 ára. Móðir hennar, Jóhanna Kristjónsdóttir blaðamaður, skáld og ferðamaður, féll frá 2017. Af hverju náðu mæðgurnar aldrei sambandi, þó að þær hafi deilt öllu lífi sínu, og reynt að horfast í augu í gegnum sorgir og sigra?