Landsþekkti tónlistar- og sjónvarpsmaðurinn, Unnstein Manuel Stefánsson og Hermigervill settu tóninn fyrir hinn árlega viðburð í umsjón KLAK - Icelandic Startups, Prosecco & Pitch, sem fram fór mánudaginn 25. mars í Grósku hugmyndahúsi.
Þau níu sprotafyrirtæki sem taka þátt í Hringiðu í ár kynntu verkefni sín en Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Hringiðu opnaði viðburðinn og bauð öll velkomin við mikinn fögnuð viðstaddra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði frumkvöðlana, sprota og gesti og hvatti þátttakendur í Hringiðu áfram á þeirra vegferð.
Það ríkti mikil spenna og eftirvæntingin var áþreifanleg þegar einna mínútu kynningar þátttakenda hófust. Artic Fibers, Circula, Ekkó, Flöff - textílvinnsla, Í djúpum, Ró, Seagrowth, Velja og Visttorg hafa unnið hörðum höndum að því að koma lausnum sínum, sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í umhverfismálum, í góðan farveg.
„Íslenska sprotasenan skemmti sér mjög vel og fyllti rýmið fyrir framan hinn fræga gróðurvegg Grósku. Við teljum að yfir 120 manns hafi mætt til að fá sér prosecco fyrir páskafríið og sjá þátttakendur fara með einna mínútu kynningar. Ég er mjög ánægð með hvernig til tókst en fyrir utan kynningar sprotanna var hvetjandi og skemmtilegt að hlusta á Guðlaug Þór Þórðarson, ráðherra.
Við þökkum bakhjörlunum og samstarfsaðilum sérstaklega fyrir því án þeirra aðkomu væri ekki hægt að keyra viðskiptahraðal eins og Hringiðu. Við hlökkum til áframhaldandi samvinnu næstu vikurnar í Hringiðu en fjárfestadagur Hringiðu er 2. maí.” segir Jenna Björk Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Hringiðu.
Umsjón með Hringiðu hraðlinum, sem keyrður er í fjórða sinn í ár, er í höndum KLAK – Icelandic Startups sem hefur til fjölda ára veitt aðstoð við þróun viðskiptahugmynda og leitt saman hóp hagaðila með verðmætasköpun að leiðarljósi.
Bakhjarlar Hringiðu eru Reykjavíkurborg, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Orkuveitan, Faxaflóahafnir, Terra, Ölgerðin og Samtök iðnaðarins. Samstarfsaðilar Hringiðu eru Hringrásarklasinn, Rannís, Breið þróunarfélag, Evris, Sjávarklasinn, Orkuklasinn, F6S, Hugverkastofa og Grænvangur.