Bjarni Herrera fagnaði útgáfu á sinni fyrstu bók Supercharging Sustainability. Boðið var haldið á Bistro við Elliðaárstöð. Bjarni er stofnandi og framkvæmdastjóri Accrona, sem veitir þjónustu á sviði sjálfbærni og sjálfbærra fjármála um allan heim. Hann er einnig eigandi Post50 sem fjárfestir í sjálfbærnitengdum verkefnum og fyrirtækjum og hjálpar stofnendum með fjármögnun og skölun erlendis.
„Ég er ótrúlega ánægður með viðtökurnar á bókinni. Supercharging Sustainability, sem á eftir að þýða yfir á íslensku, tekur á stóru myndinni, þ.e. hvernig sjálfbærniumræðan hefur þróast, hvernig hún snýr að fyrirtækjum, hvernig sjálfbærni er innleidd og hvernig sjálfbær framtíð verður fjármögnuð. Ég fékk þær góðu fréttir kvöldið áður að bókin var nr. 1 á lista hjá Amazon yfir nýjar grænar viðskiptabækur. Hún er skrifuð sem einföld, aðgengileg, en yfirgripsmikil aðallega fyrir þá sem ekki skilgreina sig sem sérfræðinga í málaflokknum. Hún hjálpar fólki að tengja,“ segir Bjarni og er alsæll með boðið.
Áhrifafólk úr atvinnulífinu og fjármálaheiminum lét sig ekki vanta í boðið og var ýmsum spurningum velt upp eins og hvernig sjálfbær framtíð gæti litið út? Hver er besta leiðin að sjálfbærri framtíð og hvernig er hún fjármögnuð? Áhugaverðar pallborðsumræður áttu sér stað sem þátttakendur tókust á í góðu og gestir höfðu gaman af.
Í pallborði voru Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, Helena Kristín Brynjólfsdóttir, viðskiptastjóri í eignastýringu Arion banka, og Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður loftslags og grænna lausna hjá Landsvirkjun.