Nóttin: Reynir og Margrét ástfangin í ísbúð

Fræga fólkið skemmti sér í vikunni.
Fræga fólkið skemmti sér í vikunni. Samsett mynd

Nóttin er ennþá að bíða eftir því að sumarið komi svo hún geti farið að sósa sig á Austurvelli sem getur orðið eins og Smugan á góðum degi. Nóttin neyddist til að sósa sig innandyra um síðustu helgi í von um að netið fylltist af hákörlum ekki botnfiskum í lífslokameðferð. Nóttin nennir heldur ekki að hirða upp leifarnar úr Akrahverfinu í Garðabæ. 

Það er nóg að hafa óminn af því í eyrunum alla daga í gegnum pabba sem lifir mun hressilegra ástarlífi en dóttir hans. Hversu sorglegt er það? Að maður á sjötugsaldri sofi meira hjá en kona á barnaeignaraldri. Líklega þarf Nóttin að fara að leita á ný mið eða hætta að spá í því hversu aumkunarverð hún er. 

Halldór Benjamín Þorbergsson.
Halldór Benjamín Þorbergsson.

Á fimmtudaginn í síðustu viku var eldri hluti aldamótakynslóðarinnar mættur í Gamla bíó þar sem hip-hop plötusnúðurinn DJ Shadow mætti og tryllti lýðinn. Það gladdi Nóttina að sjá Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóra Heima, svona glaðan fremst við sviðið. Á tónleikunum voru fleiri framamenn í íslensku viðskiptalífi, svo sem Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar. 

Kamilla Einarsdóttir er hér fyrir miðju.
Kamilla Einarsdóttir er hér fyrir miðju. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Eftir erfiða viku ákvað Nóttin að drekka sorgum sínum. Það er hvergi betra að gera það en á Kjarval. Það voru engir álitlegir hákarlar í lausasundi á svæðinu. Bara nokkrir harðkvæntir og þyrstir. Það var hinsvegar nóg af drottningum sem kunna að lifa lífinu með örlítið meiri reisn en Nóttin. Þar var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra, Marta Matthíasdóttir lögfræðingur og ofurskvís, Vig­dís Häsler, fyrrverandi framkvæmdastjóri Bandasamtakanna og Kamilla Einarsdóttir rithöfundur. Sæti leikarinn Jafet Máni var á svæðinu ásamt kærasta sínum, Rúnari löggu. Þar voru einnig viðskiptaspekúlantarnir Hörður Ægisson og Stefán Einar Stefánsson kampavínskóngur. Þar var líka Freyr Frostason arkitekt, Árni plötusnúður og Valdimar Agnar Valdimarsson bankamaður. Þegar það var að detta í háttatíma hjá Nóttinni hringdi mamma og sagðist vera læst úti. Takk mamma! Já, mamma er ennþá á landinu - meira um það síðar ... dæs. 

Nóttin var varla vöknuð þegar vinkona hennar hringdi og sagði að hún yrði að vera vængmaður í veislu seinna um daginn. Fyrrverandi kærasta bróður vinkonu hennar var að útskrifast úr HR og þar sem vinkonan hafði sofið hjá pabba útskriftarnemans á fylleríi í veiðiferð (löng saga) grátbað hún Nóttina að koma með sér. Nóttina sagði náttúrlega já. Hún ætlaði ekki að missa af yfirstéttarveislu fína fólksins á Seltjarnarnesi. Og heldur ekki að sjá andlitið á pabba útskriftarnemans þegar þessar drottningar úr 101 myndu valda usla í veislunni. Því miður reyndi ekkert á þetta því um það bil 250 manns voru samankomnir í 185 fm stofu og stóð fólk svo þétt að enginn gat andað og heldur ekki talað saman. Nóttin og vinkona hennar létu þó hella vel í glösin hjá sér og voru eldhressar þegar þær mættu á Rönken. Þar var leikkonan Anna Hafþórsdóttir og Gústi bakari í Bakabaka í samfloti með Ásgeiri sem á Rönken. Einhvern veginn flaut Nóttina út í nóttina og vaknaði heima hjá sér. 

Lögfræðiskrifstofan keypti miða á einhvern miðlungs ballettflokk frá Bretlandi í Hörpu fyrir alla skrifstofuna. Eftir ballettinn kíkti Nóttin á Edition í drykk. Þar voru líka kvikmyndastjörnurnar Luther Ford og James Norton. Nóttin heldur að Norton sé að elta sig en hún var líka með honum í Icelandair flugi frá London í síðustu viku. Ástfangna parið Árni Oddur Þórðarson og Kristrún Auður Viðarsdóttir voru þar líka sem og Jón Guðni Ómarsson bankastjóri Íslandsbanka. Össur Skarphéðinsson lét sig ekki vanta og heldur ekki Katrín Hall og Kristín Jóhannesdóttir systir Jóns Ásgeirs var einnig á svæðinu.  

Eftir einn stuttan drykk á Kaffi Vest á fimmtudagskvöldið þar sem Bríet var í góðu yfirlæti yfir börger í sólinni brunaði Nóttin í Akrahverfið. Pabbi bauð upp á steik, ekkert grænmetisbuff lengur eftir að innanhússstílistinn flutti út í fússi. Eftir matinn fór pabbi með stelpuna sína í ísbúðina Huppu á Garðatorgi. Að fara með pabba út í ísbúð er eins og fara inn í tímavél. Það vantaði bara Tark-buxurnar. Í ísbúðinni voru fyrir kærustuparið Margrét Ýr Ingimarsdóttir, kennari og eigandi Hugmyndabankans, og Reynir Finndal Grétarsson, fjárfestir og frumkvöðull. Þau splæstu í sitthvorn bragðarefinn. Rebbinn er orðinn fjandi dýr en þar sem pabbi splæsti ákvað Nóttin að fá sér einn stóran.

Á leiðinni heim sá Nóttin Eddu Falak úti að ganga með kærasta sínum, Kristjáni Helga Hafliðasyni glímukappa, í gamla Vesturbænum. Henni leið svolítið illa eftir bragðarefinn þegar hún sá Eddu svona ferska en þar sem sukkið var hafið ákvað hún að koma við á hverfisbarnum Kjarval á leiðinni heim og fá sér einn eða tvo fyrir svefninn. Á Kjarval var nánast enginn og minnti Nóttina á þá staðreynd að flest fólk á líf og fjölskyldu fyrir utan Kjarval. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál