Danskennarinn Kara Arngrímsdóttir fagnaði 60 ára afmæli sínu á laugardaginn var. Veisluhöldin fóru fram í nýjum húsakynnum Dansskóla Köru.
„Það eru 35 ár síðan að ég stofnaði dansskóla fyrst með Jóni Pétri Úlfljótssyni. Ég hef rekið Dansskóla Köru síðastliðin fimm ár og það er búið að ganga ótrúlega vel. Innan skólans starfar Dansfélag Reykjavíkur sem er aðili að Íþróttahreyfingunni. Í félaginu eru einhver af bestu danspörum landsins sem eru í landsliði Dansíþróttasambands íslands,“ segir Kara.
Á ferli sínum hefur Kara upplifað margar góðar minningar.
„Það hefur margt skemmtilegt gerst á þessum tíma. Það sem stendur líklega mest upp úr eru ferðalögin erlendis og hér innanlands og fólkið sem ég hef kynnst á þessum árum hér heima og í raun um allan heim. Ég var sjálf margfaldur Íslandsmeistari í dansi ásamt dansfélaganum mínum og fór víða erlendis að keppa fyrir hönd Íslands á Evrópu- og heimsmeistaramótum. Ég hef síðan þjálfað dansara sem hafa fylgt á eftir og nú síðast í júlí fór ég með tvö pör til Kína á heimsmeistaramót unglinga í suðuramerískum dönsum. Auk þess er ég með alþjóðleg dómararéttindi og hef farið víða um heim að dæma dansmót,“ segir hún.
Kara fær mikið út úr dansinum og segir að hann virki eins og góður sálfræðitími.
„Ég elska að kenna dans. Það skiptir ekki máli á hvaða aldri nemendur eru eða hvort þeir eru byrjendur eða Íslandsmeistarar. Í skólanum er boðið upp á námskeið fyrir allan aldur frá þriggja ára aldri. Það er svo gaman að sjá fólk breytast fyrir framan sig. Byrjendur labba inn í sal og kunna ekkert en ganga síðan út með höfuðið hátt og bros á vör eftir að hafa lært sporin í nokkrum dönsum. Þau sem æfa keppnisdans eru stöðugt að bæta sig og setja markið hátt. Það er svo gefandi að fá að vera með þeim og hjálpa þeim í þeirri vegferð,“ segir hún.