Kristín Amy Dyer eigandi Tropic varð þrítug á þessu ári og ákvað að slá upp veislu af því tilefni en líka til að fagna fyrirtæki sínu. Veislan var haldin á Reykjavík Röst við Geirsgötu.
„Ég hef í sjálfu sér ekki verið nægilega dugleg að fagna stóru og litlu sigrunum í þessari vegferð. Þessi viðburður var mín breyting á því og hvatning til annarra að gera slíkt hið sama,“ segir Kristín Amy í samtali við Smartland en í sumar kom hún með sitt eigið plöntuprótein á markað.
„Tropic mun halda áfram að koma með nýjar vörur á markað á næstu misserum með metnað og gæði að leiðarljósi. Fyrirtækið horfir bjartsýnt til framtíðar og hlakkar til að deila næstu skrefum með viðskiptavinum sínum. Allar veitingar voru plöntumiðaðar sem endurspeglar gildi fyrirtækisins. Maturinn kom frá Reykjavík Asian og kökurnar voru frá Plöntunni á Njálsgötu og Garðinum Klapparstíg. Fljótandi veigar voru frá CCEP,“ segir Kristín Amy.