„Ég hef ekki endalausa kynorku“

Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur.
Ragnheiður Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ragnheiður Eiríksdóttir, eða Ragga Eiríks eins og hún er kölluð, svarar spurningum lesenda Smartlands Mörtu Maríu. 

Sæl Ragga

Ég er 50+ og hef verið í mjög gefandi sambandi við konu á mínum aldri í tæpt ár. Við erum bæði mikið fyrir kynlíf og njótum þess vel saman. Við erum nú í seinni tíð farin að vera meira og meira saman og nú orðið ekki nema einn til tveir dagar í viku sem við erum ekki saman. Eins yndislegt og kynlífið er vil ég samt viðhalda spennunni en hef ekki endalausa kynorku og er líka hræddur við að það skemmi fyrir okkur þegar til lengdar lætur. Hvernig fer ég að því að stilla þessu í hóf kannski annan eða þriðja hvern dag án þess að það sé fast skipulag en samt þannig að það virki ekki eins og höfnun fyrir vinkonu mína?

Takk fyrir, 

Orkugaurinn

Komdu sæll

Það er gott og gaman að stunda hressilegt kynlíf en eins og þú bendir réttilega á er orkan stundum takmarkandi þáttur þó að viljann vanti síst. Í upphafi sambanda er lostinn oftast í miklum blóma, hann er vissulega ríkur þáttur í aðdráttaraflinu milli fólks og svo er riðið upp um alla veggi fyrstu mánuðina (stundum árin... en örugglega ekki fyrstu áratugina). Þegar frá líður verður í flestum samböndum lengra á milli kynlífsstundanna og eftir áratug í hefðbundnu einkvænissambandi held ég að flestum þyki bara helvíti fínt að að ná eins og einum drætti á viku. Þetta er þó misjafnt og snýst um fleira en tíðnina - trylltur ástaleikur með flengingum og rjómasprautu einu sinni í mánuði ásamt nokkrum sameiginlegum sjálfsfróunarsenum getur verið fullkomlega ásættanlegt plan fyrir eitt par á meðan nágrannarnir stunda rútínuríðingar á mánudögum, miðvikudögum og laugardögum með ljósin slökkt og fá lítið sem ekkert út úr því nema líkamlega losun og sælu í smástund. Með öðrum orðum verður fólk að finna sinn takt og hvað virkar best. Auðvitað snýst langtímaskuldbinding um að finna samnefnara og hentuga málamiðlun sem báðir aðilar sambands geta sætt sig við. Tíðni kynlífsathafna er takmörkuð af þeim aðila sambandsins sem hefur minni orku eða áhuga og sá graðari verður bara að gjöra svo vel að sitja með hendur í skauti þar til mótaðilinn er kominn í stuð. Kynlífsorkan okkar sveiflast líka heil ósköp og í langtímaeinkvænissambandi getur verið mikil kúnst að halda henni við. Manneskjur eru spenntar fyrir nýjungum, nýjungar gera okkur gröð og þess vegna loga lendar fólks í upphafi sambanda og kynlífið blómstrar. Nýjungagirnin er líka oft ástæðan fyrir því að sirka helmingi þeirra sem lofa öðrum einstaklingi trúmennsku í einkvænissambandi skrikar fótur. 

En hvað er til ráða? Þú ert smeykur um að særa kærustuna þína ef þú ferð að passa upp á orkuna þína og setja þínar þarfir í fyrsta sæti. Ég held að þú ættir að reyna að ræða málið við hana en reyndu eins og þú getur að nálgast þetta undir jákvæðum formerkjum. Það er auðvitað æðislegt fyrir þig að hún sé svona gasalega skotin í þér og að hún fái ekki nóg af þér kynferðislega og gefur til kynna að þú hafir ýmislegt gott til brunns að bera. Fylltu hugann af þakklæti og gleði áður en þú byrjar spjallið, það er betri útgangspunktur en ótti við að særa hana eða framkalla höfnunartilfinningu. Haltu fókusnum á því sem þið eigið saman og vertu umfram allt skýr varðandi tilfinningar þínar til hennar. Mögulega geturðu opnað umræðu um sjálfsfróun, að hún gæti fróað sér og þú knúsað hana á meðan - þú gætir jafnvel útbúið handa henni fallegan pakka með öflugum nútímatitrara innan í. Snúðu þessu þér í hag - fagnaðu kynorku kærustunnar og fáðu hana í lið með þér til að finna bestu lausnina sem virkar fyrir ykkur bæði. Ef þessar mjúku aðgerðir duga ekki gætuð þið þurft að skoða aðrar leiðir til að kynferðisleg ánægja ykkar beggja sé tryggð - til dæmis að konan fái að njóta ásta með utanaðkomandi aðila með reglubundnu millibili án þess að sambandi ykkar standi af því ógn... Ég veit að sú tilhugsun kann að vera ógnvekjandi því í okkar menningu er allt annað en einkvæni lagt að jöfnu við endalok sambands, en mig langar nú samt að skella þeirri hugmynd fram því að ég held virkilega að í sumum tilfellum sé samþykkt og skilyrt fjöllyndi betri lausn en skilnaður. 

Gangi þér vel og megi orkan streyma inn í þig,

Ragga

www.raggaeiriks.com

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Röggu spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda