Eftir að við greindum frá því að transkonan Jóhanna Erna Guðrúnardóttir ætti erfitt með að finna sér vinnu sökum fordóma annarra höfum við fengið mikil viðbrögð. Viðbrögðin hafa meðal annars verið frá þeim sem eru í svipaðri stöðu og Jóhanna og hafa upplifað það sama og hún. Þá hefur starfsmanna- og gæðastjóri KFC einnig haft samband og svarað fréttinni.
Ekki náðist í talsmann KFC við gerð fréttarinnar um Jóhönnu en Barbara Kristín Kristjánsdóttir, starfsmanna- og gæðastjóri KFC, hefur nú sagt sína hlið á málinu.
„Það er ekki rétt að henni hafi verið hafnað vegna þess að hún er transgender né hafði ég þær upplýsingar. Umsókn hennar fór í hefðbundið ferli eins og allar umsóknir og ég kallaði eftir frekari upplýsingum þar sem umsóknin hennar var ekki fullkláruð. Hún var því miður ekki meðal þeirra sem voru boðaðir í viðtal í það skiptið enda eru fjölmargir sem sækja um hjá KFC. Það að hún er transgeder hafði ekkert með val mitt að gera,“ segir Barbara sem kveðst fagna fjölbreytileikanum.
„Nú er KFC að auglýsa eftir starfsfólki og Jóhönnu er velkomið sækja um eins og öðrum. Staðirnir okkar átta eru fullir af frábæru, fjölbreyttu og skemmtilegu starfsfólki,“ segir Barbara að lokum. „Við myndum aldrei mismuna, það væri eins langt frá okkar stefnu og mögulegt er.“