„Fyrirgefning er mikið notuð í parameðferð sem og í allri almennri meðferð þar sem unnið er með tilfinningar einstaklings eða einstaklinga. Margir fagaðilar hafa brennt sig á því að skilningur skjólstæðinga þeirra á því hvað fyrirgefning er fer ekki saman við almenna skilgreiningu á fyrirgefningunni. Í þessari grein verður í mjög stuttu máli fjallað um fyrirgefningu, mikilvægi hennar og hvernig best er að skilja hvað hún inniheldur,“ segir Theodór Francis Birgisson ráðgjafi hjá Lausninni í sínum nýjasta pistli:
Þrátt fyrir að fyrirgefning hafi verið umfjöllunarefni samtalsmðerferða frá upphafi þeirrar aðferðar þá fóru fræðimenn ekki að skoða fyrirgefningu af neinni alvöru fyrr en eftir 1985. Fram að þeim tíma höfðu aðeins verið framkvæmdar fimm akademískar rannsóknir á fyrirgefningu en í dag skipta þær hundruðum (Fincham, Jackson, & Beach, 2005). Meðferðaraðilar um allan heim nota fyrirgefningu sem mikilvægan þátt í að aðstoða fólk við að byggja upp rómantísk samband og til að laga samband þar sem upp hefur komið framhjáhald eða annar þess háttar trúnaðarbrestur í sambandinu (Gordon, Baucom, & Snyder, 2005).
Margir telja að það að fyrirgefa sé í raun að samþykkja að á þeim hafi verið brotið og að það sé bara eðlilegt og ekkert við því að gera. Það að fyrirgefa sé þannig birtingarmynd þess að vera veikur og að hægt sé að vaða yfir mörk viðkomandi. Fincham og félagar (2006) koma meðal annars inn á í grein sinni hvert eðli fyrirgefningar er og hvað aðskilur fyrirgefningu frá ýmsum öðrum fyrirbærum eins og til dæmis sáttargerð (e. reconcile). Fincham fjallar um að fyrirgefning er ferli en ekki bara ákvörðun. Ferlið hefst hins vegar með þeirri ákvörðun að vilja fyrirgefa og læra þá um leið hvernig fara á að því að útfæra það ferli. Það tekur sem sagt tíma að fyrirgefa og sá sem brotið hefur gegn einhverjum þarf að bera viðringu fyrir því ferli sem brotaþoli þarf að fara í gegnum til að yfirvinna sársaukann. Þegar við fyrirgefum þurfum við ekki að taka þann sem við fyrirgefum í sátt og við fyrirgefum ekki til að leysa aðra frá sekt, skömm, lítilsvirðingu eða öðrum sársauka. Við gerum það til að leysa okkur sjálf frá þessum hamlandi og neikvæðu atriðum. Þegar við fyrirgefum þá leysum við þann sem olli okkur særindum frá „skuld“ sem myndaðist við brotið þrátt fyrir að sá hinn sami eigi það alls ekki skilið. Sá sem fyrirgefur er þannig að gefa óverðskuldaða gjöf til þess sem brotið hefur gegn honum (Enright, Freedman, & Rique, 1998).
Fyrirgefningin er þannig í raun og veru viðurkenning á því að brotið hafi verið gegn viðkomandi og að það hafi verið illa gert og að tilefnislausu. Það á ekkert skilt við það að láta eins og ekkert hafi gerst eða gera lítið úr brotinu með athugasemdum eins og „þetta skiptir engu máli“ eða „við skulum bara gleyma þessu“. Sú aðferð leiðir eingöngu til þess að sársaukinn fær næði til að vaxa og skyggja um leið meira og meira á lífsgæði og lífsgleði þess sem ber sársaukann. Með fyrirgefningu er sársaukanum gefið vel skilgreint pláss og síðan er unnið með hann í ferli lækningar og endurreisnar (Fincham, 2006).
Það er algengt að einstaklingar sem brotið hefur verið á telja sig hvorki geta né vilja fyrirgefa. Í flestum tilfellum er þá um að ræða ranga skilgreiningu á því hvað það er að fyrirgefa. Flestir vilja fyrirgefa þegar þeir heyra um hvað það snýst en telja sig þó ekki geta fyrirgefið. Fyrirgefning er flókið og tímafrekt ferli og í mörgum tilfellum er nauðsynlegt að leyfa fagaðila að hjálpa sér í gegnum það ferli, sérstaklega ef skilningur á hvað fyrirgefning er liggur ekki ljós fyrir (Wade, 2012).
Allir menn vilja fá að vera hamingjusamir og fá að líða vel. Ef okkur tekst ekki að fyrirgefa hamlar það verlulega getu okkar til að líða vel og njóta þeirrar vegferðar sem við erum á.
Heimildir:
Enright, R. D., Freedman, S., & Rique, J. (1998). The psychology of interpersonal forgiveness. In R. D. Enright & J. North (Eds.), Exploring forgiveness (pp. 46-62). Madison: University of Wisconsin Press.
Fincham, F. D., Jackson, H., & Beach, S. R. H. (2005). Transgression severity and forgiveness: Different moderators for objective and subjective severity. Journal of Social and Clinical Psychology, 24, 860-875.
Fincham, F.D., Hall, J., Beach, S.R.H. (2006). Forgiveness in Marriage: Current Status and Future Directions. Family Relations, 55.4: 415-427.
Gordon, K., Baucom, D. H., & Snyder, D. K. (2005). Forgiveness in couples: Divorce, infidelity, and couples therapy. Í E. L. Worthington (ritstjóri), Handbook of forgiveness (pp. 407-422). New York: Routledge.
Wade, N. G. (2012). Introduction to the Special Issue on Forgiveness in Therapy. Journal of Mental Health Counseling; Jan 2010; 32, 1.