Þóra Margrét Baldvinsdóttir, eiginkona Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, segir að þau hjónin hafi fyrir forvitnissakir skoðað framhjáhaldssíðuna Ashley Madison fyrir nokkrum árum. Hún segir að nú hafi þeim hjónum borist margar ábendingar um að rætt sé manna á milli um að gamalt netfang Bjarna tengist gögnum sem lekið hefur verið af síðunni og dreift á netinu.
„Svona getur forvitnin leitt mann í gönur,“ skrifar Þóra Margrét í opinni Facebook-færslu í dag.
„Við heyrðum um þennan umdeilda vef í erlendum fréttum fyrir um 7 árum (2008). Í framhaldi af því skoðuðum við vefinn fyrir forvitnissakir, en til þess þurfti að fylla út þar til gert form, skrá netfang, erlent póstnúmer og fleira sem við gerðum í algjörum hálfkæringi og af léttúð.
Við höfum aldrei síðan farið inn á þennan vef. Það var aldrei greitt fyrir skráningu eða aðgang að vefnum. Þessi heimsókn hefur ekki leitt til samskipta við nokkurn mann, hvað þá trúnaðarbrots af neinum toga.
Ekki er allt sem sýnist á netinu.
Ást og friður.“