Þolendur kynferðisofbeldis geta átt erfitt í samböndum

Helga Lind Pálsdóttir og Theodór Francis Birgisson eru að fara af stað með námskeið í Lausninni sem ber nafnið „Frá kynferðisofbeldi í heilbrigt samband“. Markmið námskeiðisins er að opna umræðuna um hvaða afleiðingar kynferðisofbeldi getur haft og hefur á kynlíf í nánum samböndum og hvernig er hægt að byrja að vinna að bættum stundum innan sambandsins.

„Líklegast geta flestir verið sammála um að kynlíf getur verið dásamleg athöfn sem eykur nánd og ánægju í parsambandi.

Einstaklingur sem hefur orðið fyrir kynferðisofbeldi, sama í hvaða mynd, hefur upplifað aðra hlið á kynlífi og kynferðislegum athöfnum, þ.e.a.s. reynslu sem lituð er af þvingunum, vanmætti og sorg. Því getur það reynst þolendum kynferðisofbeldis erfitt að sjá kynlíf sem skemmtilegan, góðan, eðlilegan og gefandi part af parsambandinu,“ segja þau Helga Lind og Theodór Francis.

Þau segja að kynferðisofbeldi, sama í hvaða mynd það er, þá geti það haft langvarandi áhrif á þann sem fyrir því verður.

„Afleiðinga ofbeldisins gætir víða í lífinu og hefur verið sýnt fram á að þolendur kynferðisofbeldis eiga oft erfitt með að mynda tilfinningalega nánd í vinar/ástarsambandi og ekki síst þegar kemur að kynlífi eftir ofbeldið (McEvoy og Daniluk, 1995).

Afleiðingar kynferðisofbeldis geta komið fram strax eftir ofbeldið en þær geta einnig komið fram löngu eftir ofbeldið, jafnvel mörgum árum seinna. Oft koma afleiðingarnar fram tengt ákveðnum lífsatburðum svo sem nýjum samböndum, meðgöngu og fæðingu barns og aðstæðum sem krefjast aukinnar nándar við aðra manneskju (Bass og Davids, 1994 og McEvoy og Daniluk, 1995).

Afleiðingar kynferðisofbeldis geta átt sér margskonar birtingamyndir, rannsóknir hafa þó sýnt fram á að algengt er að bæði konur og karlar upplifa truflun í kynlífi eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, truflun sem getur varað til margra ára sé ekki unnið úr ofbeldinu (Walker o.fl., 2005). Sem dæmi virðist nokkuð algengt að konur sem eru þolendur kynferðisofbeldis eigi erfitt með líkamlega snertingu og geta jafnvel upplifað snertingu maka óþægilega. Kvenkyns þolendur geta átt erfitt með að njóta kynlífs með maka sínum og upplifa kynlíf jafnvel frekar sem skyldu en til gagnkvæmarar ánægju (Sigrún Sigurðardóttir, Sigríður Halldórsdóttir og Sóley S. Bender, 2013). Það að geta sett orð á, skilgreint og rætt þennan vanda innan parasambandsins er upphaf að betri samskiptum, meiri nánd og vellíðan para og hjóna,“ segja þau.

Heimildir:

Bass, E. og Davis, L. (3. útg.) (1994). The courage to heal: A guide for women survivors of child sexual abuse. New York: Harper Perennial.

McEvoy, M., & Daniluk, J. (1995). Wounds to the soul: The experiences of aboriginal women survivors of sexual abuse. Canadian Psychology, 36(3), 221-235. Sótt af: http://search.proquest.com/docview/220785010?accountid=135943

Sigrún Sigurðardóttir, Sigríður Halldórsdóttir og Sóley S. Bender. (2013). Consequences of childhood sexual abuse for health and well-being: Gender similarities and differences. Scandinavian Journal of Public Health, 1-9.

Walker, J. Archer, J. og Davies, M. (2005). Effects of rape on men: A descriptive analysis. Archives of Sexual Behaviour, 34(1), 69-80.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda