Að elska er ákvörðun!

Theodór Francis Birgisson.
Theodór Francis Birgisson.

Besta tilfinning í heimi er að elska og vera elskaður. Það er alla vega mín upplifun og á þeirri upplifun byggi ég skoðun mína. Samt er það vetvangur ástarinnar sem veldur svo miklum sársauka í lífi fjölda fólks. Hvernig stendur á því að þessi yndislega tilfinning getur leikið einhvern svona grátt. Með sama hætti má spyrja hvernig á því stendur að kynlíf, sem er einhver fallegasti máti til að tjá raunveralega og gagnkvæma ást á milli tveggja einstaklinga, getur orðið jafn hræðilegt verkfæri og bölvaldur eins og reynslan segir okkur. Þessum spuringum verður gerð lítilsháttar skil í þessari grein,“ segir Theodór Francis Birgisson ráðgjafi hjá Lausninni í sínum nýjasta pistli:

Rómantísk ást birtist ekki eins í öllum menningarsamfélögum og stór hluti parasambanda í heiminum eru fyrirfram ákveðin (e. arranged marriage). Í mörgum slíkum samböndum tekst pörum að njóta umtalsverðar ánægju þar sem þau læra að elska og virða hvort annað (Lee, 2001). Ég tel þessa aðferð alls ekki heppilega en ég tel jafn óheppilegt að fólk skuli bindast eftir mjög skamman tíma og enn óheppilegra að fólk skuli deila líkama sínum og þar með lífi sínu með einhverjum sem það þekkir lítið sem ekki neitt. Það er að mínu mati nánast ávísun á brotlendingu, en þessa skoðun byggi ég ekki á akademískri rannsókn heldur eingöngu áralangri reynslu minni af því að vinna með pörum.

Þegar tveir einstaklingar „verða ástfangnir“ fer af stað flókið ferli á framleiðslu boðefna í heila. Gerðar hafa verið fjöldi rannsókna á heilastarfsemi einstkalinga í ástarferli (Barrels, 2000; Hoesni og fleiri 2012) sem leiðir í ljós að á ákveðnum stigum ferilsins minnkar geta einstaklingsins til að hugsa skýrt. Eftir að hafa unnið með pörum í áraraðir hef ég oft séð í mínu starfi að þegar einstaklingar fara í ástarvímu horfa þeir ekki bara framhjá eiginleikum nýja makans sem í raun fer mjög fyrir brjótsið á viðkomandi heldur eiga þeir líka til að hampa þeim eiginleikum. Án þess að taka raunverulegt dæmi má skýra þetta svona:

Gunna fellur fyrir Jóni sem ekki stundar neina atvinnu þar sem hann upplifir sig sem eina heild með alheiminum og alheimurinn muni örugglega sjá honum fyrir næstu máltíð. Vinir Gunnu segja þetta alveg fráleitt og að maðurinn verði að sýna ábrygð. Gunna í ástarvímu er hins vegar stórhrifin af því hvað Jón er afslappaður með lífið og tilveruna og finnst þetta einmitt einn af bestu eiginleikum Jóns. Síðan rennur vímann af Gunnu og hún verður þreytt á því að Jón á aldrei pening (sennilega vegna þess að alheimurinn hefur einhvernveginn týnt heimilisfangi Jóns) og tekur ekki neinn þátt í daglegum rekstrarkostnaði. Þannig verður besti kostur Jóns í ástarvímu þeirra orðin mesti ókostur hans.

Það er því hægt að segja að einstkalingur sem er yfirsig ástfanginn af öðrum einstaklingi sé ekki að öllu lagi í jafnvægi. Í mínu starfi legg ég áherslu á að ekki séu teknar örlagaríkar ákvarðanir í ójafnvægi. Betra sé að gefa sér tíma til að ná áttum áður en tekin er stefna í lífinu. Margir hefja hins vegar tilfinningalegan og líkamlegan samruna sem byggir ekki á nokkurri skynsamri ákvörðun. Fólk sem þekkir í raun ekki hvort annað gefur fögur loforð um ást og tryggð og í upphafi gengur allt vel en það fjarar í mörgum tilfellum hratt undan. Þá situr eftir mikill sársauki og í einhverjum tilfellum mikil sálarkrísa.

Fáir vísindamenn samtímans hafa rannsakað ástarsambönd meira en dr. John Gottman sem ásamt eiginkonu sinni dr. Julia Gottman stofnuðu og reka The Gottman Institute í Seatle (BNA). Stofnunin hefur í rúmlega 40 ár stundað rannsóknir á líðan og hegðan einstaklinga í ástarsamböndum og hafa sett fram áhugaverðar kenningar um hvað ástarsamband þarf að búa yfir til að lifa af storma lífsins. Gottman (1999) telur að grundvöllurinn sem allt annað í parsambandinu byggir á sé vinátta. Án hennar sé í raun ekki hægt að láta parsamband ganga upp. Að byggja upp og viðhalda vináttusambandi er í öllum tilfellum langtímaverkefni. Það er hægt að skrifa langar og áhugaverðar greinar um vináttu og eðli hennar en það bíður betri tíma. Það er hins vegar hægt að segja á einfaldan hátt að eina leiðin til að byggja vináttu er að einstaklingar eigi í samskiptum þar sem hjarta snertir hjarta. Án samskipta verður aldrei til vinátta.

Ein ástæða þess að mörg ástarsambönd brotna er að fólk byrjar að tengjast líkamlega löngu áður en það tengist tilfinningalega, sem sagt löngu áður en einstaklingarnir eru orðnir vinir. Það tekur langan tíma að byggja upp vinarsamband og slíkt samband byggist aldrei á einni nóttu. Ástæða þess að fólk ætti aldrei að deila líkama sínum með neinum nema þeim sem það þekkir og treystir er að annars er mikil hætta á að sá hinn sami dragi ekki mörk fyrir sjálfan sig og ”samþykki” eitthvað í kynlífi sem viðkomandi er í raun alls ekki sáttur við. Kynlíf er yndislegt, en það er líka brotthætt og því meira sem par ræðir um væntingar sýnar, þarfir og langanir varðandi kynlíf sitt því betra verður það og öryggið á þessum brothætta vetvangi eykst. Dr. Sue Johnson er afkastamikill fræðimaður og klínískur þerapisti sem hefur sett fram mjög áhugaverða kenningu um mikilvægi tilfinningatengsla í parsamböndum. Johnson (2011) bendir á að í kynlífi sé það í raun ekki líkamlegu viðbrögð fullnægingar sem einstaklingar sækist eftir í kynlífi heldur tilfinningatengslin sem myndast. Slík tengsl myndast ekki án þess að fyrir liggi vinátta (Gottman og Silver, 2012). Án þessarar tilfinningarlegu tenginga gæti fólk allt eins stundað sitt kynlíf í sjálfsafgreiðslu með sjálfu sér.

Einstaklingar í ástarsambandi ”lenda” ekki í því að vaxa frá hvor öðrum, þeir taka meðvitaða ákvörðun um að færa traust sitt og trúnað á annan aðila en maka sinn. Gottman (2012) telur þennan þátt vera örsök flestra skilnaða, og að ”svikin” eigi sér stað löngu áður en einstaklingar hefja kynferðilslegt samband við annan en maka sinn. Það að elska einhvern felur í sér að viðkomandi aðili gefur hjarta sitt og vináttu til annars aðila. Til þess þarf að taka meðvitaða ákvörðun og af því má leiða að það að elska einhvern er ekki byggt á tilfinningu líðandi stundar heldur er um hreina ákvörðun að ræða.

Heimildir:

Barrels, A., & Zeki, S. (2000). The neural basis of romantic love. NeuroReport, 11, 1-6.

Gottman, J. (1999) The Seven Principles for Making Marriage Work. New York: Three Rivers Press

Gottman, J., Silver, N. (2012). What makes love last? New York: Simon & Schuster.

Hoesni, S.M., Hashim, I.H.M., Rahman, Z.A. (2012). A Preliminary Study: What Is Love in a Marriage? Asian Social Science, suppl. Speical Issue8.9 (Jul 2012): 57-65.

Johnson, S. (2011). Hold my tight. London: Hachette Digital

Lee, J. (2001). Growing yourself back up. New York: Three Rivers Press

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda