Elísabet býr til vinsæl ASMR-slökunarmyndbönd

Elísabet Kristjánsdóttir segir ASMR-myndbönd ekki snúast um „fetish“.
Elísabet Kristjánsdóttir segir ASMR-myndbönd ekki snúast um „fetish“.

„Ég veit ekki hvort allir „geti“ fengið þessa tilfinningu. Það er búið að rannsaka þetta voða lítið. En ég veit að það eru margir sem vita ekkert hvað þetta er og hafa aldrei upplifað hana. En hvort þeir eigi bara eftir að rekast á rétta „triggerinn“ til þess að upplifa þessa tilfinningu, veit ég ekki,“ segir Elísabet Kristjánsdóttir sem heldur úti YouTube-síðunni Elizabeth ASMR. Á þeirri síðu birtir hún slökunarmyndbönd sem geta kallað fram tilfinningu sem kallast ASMR.

En hvað er ASMR? „ASMR eða Autonomous Sensory Meridian Response  er líkamleg tilfinning sem er hægt at lýsa sem fiðringi eða „kitli“ sem byrjar í höfðinu eða hársverðinum og getur ferðast niður mænuna. Hvað gefur manni ASMR er mjög einstaklingsbundið,“ útskýrir Elísabet og tekur dæmi um hluti sem geta kallað fram ASMR hjá fólki. „ Að sjá einhvern greiða á sér hárið, ákveðnir hreimar eða að sjá og heyra í einhverjum sem slær létt með nöglum á borð. Og margt, margt fleira.“

Íslenski hreimurinn vekur lukku

Elísabet er með tæplega 11.000 fylgjendur á YouTube, hún þakkar meðal annars íslenska hreimnum fyrir þennan myndarlega fylgjendahóp. „Ég er sjálf alveg rosalega mikið fyrir hreimana, þá sérstaklega þá rússnesku. Ég var forvitin að sjá hvort íslenski hreimurinn væri eitthvað sem fólki fyndist afslappandi. Þess vegna prófaði ég, skellti á mig þykkum íslensku hreim og „uploadaði“ myndbandi. Og viti menn, hreimurinn varð aðalástæða þess að fólk heimsótti mína Youtube-rás.“

Elísabet kveðst hafa fengið góð viðbrögð við myndböndunum sínum. „ASMR-samfélagið er samfélag fullt af fólki sem langar bara að slaka á og upplifa þessa afslappandi tilfinningu, þess vegna er fólk yfirleitt mjög tillitssamt og þakklátt fyrir að maður setji vinnu í að taka upp og klippa myndbönd. Ég hef fengið mörg skilaboð frá fólki sem hefur þakkað mér fyrir. Það sem stendur helst upp úr var kona sem hafði nýlega misst barnið sitt og átti erfitt með að slaka á og sofa og sagði að myndböndin mín hjálpuðu henni við það, þó það væri aðeins um stundarkorn.“

Elísabet segir algengt að fólk gefi sér tíma til að horfa á ASMR-myndbönd fyrir svefninn. „Margir sem eiga erfitt með svefn nota þessi myndbönd. Ég nota þau sjálf á tímabilum þar sem ég á erfitt með að sofa. En annars er alveg hægt að horfa á þau hvenær sem er þegar maður vill slaka á.“

Ekkert kynferðislegt við ASMR-myndbönd

„Það þarf yfirleitt að koma því á framfæri að ASMR er ekki eitthver „fetish“ eða „kink“. Meirihluti þeirra sem búa til ASMR-myndbönd er ungar konur og þegar þær hvísla eða tala lágt er það oft tengt það við eitthvað kynferðislegt. Konur þekkja það að verða kyngerðar án ástæðu og er það það sem gerist mjög oft þegar rætt er um ASMR-samfélagið. Þetta er gert til þess að slaka á, ekkert annað.“

Það eru ekki allir sem þekkja þessa ASMR-tilfinningu en Elísabet tekur fram að myndböndin séu fyrir alla, ekki bara þá sem fá ASMR. „Það eru margir sem horfa á þessi myndbönd vegna þess að þau eru afslappandi. Oft þegar við hugsum um afslappandi myndbönd eða tónlist hugsar maður um panflautur, regnskógahljóð eða hvalahljóð. En við höfum kannski  ekki tengsl við þau hljóð og þau virka ekki. Aftur á móti, að hlusta á einhvern tala um daginn og veginn á meðan hann eða hún skrælar kartöflur er kannski eitthvað sem maður þekkir og hjálpar manni að slaka á. Fólk á ekki að vera hrætt við að prófa sig áfram þó það þekki ekki ASMR-tilfinninguna.“

Elísabet gerir ýmislegt í myndböndunum sínum, til dæmis eldar hún …
Elísabet gerir ýmislegt í myndböndunum sínum, til dæmis eldar hún og sýnir heimili sitt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda