Það kostar að elska

mbl.is/Getty Images/Ingram Publishing

„Það er að mínu mati ekkert jafn dýrmætt í lífinu en að fá að elska og vera elskaður. Samt sem áður gleyma margir hversu ómetanleg gjöf þessi tilfinning er. Ég sé það aftur og aftur í mínu starfi með pörum að fólki hættir til að taka þessari gjöf sem sjálfsögðum hlut. Það er hins vegar langur vegur frá því að það sé sjálfgefið að fá að elska og vera elskaður. Í þessari grein verður lítillega fjallað um gjöfina að elska, hvernig maður miðlar henni og hvernig hún er móttekin,“ segir Theodór Francis Birgisson ráðgjafi hjá Lausninni í pistli um ástina: 

Þegar ég var strákur voru örbylgjuofnar að byrja að riðja sér til rúms á íslenskum heimilum. Það var reyndar á fæðingarári mínu (1967) sem slík tæki voru fyrst framleidd sem heimilistæki. Mér þykir líklegt að slíkir ofnar séu til á flestum heimilum á Íslandi í dag, hvort sem fólk er vel stadd fjárhagslega eða ekki eins vel stadd. Tækið er nytsamlegt í ýmsum aðstæðum og hentar mjög vel til að hita til dæmis rétti frá 1944. Sem sagt skyndibita. Því sem þarf að redda snöggvast.  Þegar ég var ný kvæntur minni heittelskuðu og við höfðum flutt okkur vestur um haf til að lesa Guðfræði á vesturströnd Kanada keyptum við merkilegan grip sem ekki fékst á Íslandi í þá daga. Takkasíma. Þá þurfti ekki lengur að snúa skífunni. Það var hægt að ýta bara á takka og allt gerðist snöggvast.

Þessi „snöggvast“ þróun er enn í fullum gangi. Það má enginn vera að því að bíða eftir neinu, það þarf að redda öllu strax. En meðganga með barn tekur samt ennþá níu mánuði ef allt er eðlilegt. Og það tekur líka enn þann dag í dag tíma að byggja upp traust og nærandi ástarsamband. Þar er ekkert til sem heitir „snöggvast“ í þeim efnum. Það þarf að hafa fyrir því. Og ekki bara það, traust og nærandi ástarsamband kostar líka heilmikið. Og ég er ekki að tala um peninga. Það kostar þig sjálfa(n), tíma þinn og hjarta þitt.

Stundum er talað um að erfiðasta verkefni sem hægt sé að takast á við sé að verða foreldri. Ég er sjálfur svo ríkur að eiga fjögur börn með minni heittelskuðu og elsta dóttir okkar hefur gefið okkur þrjú barnabörn. Það er samt ekki mín reynsla að erfiðasta sem ég hafi gert sé að verða faðir. Það erfiðasta sem ég hef tekist á við er að vera maki minnar heittelskuðu. Og það er ekki af þvi að hún sé svo erfið enda er hún alveg yndisleg í alla staði. Það er vegna þess að ég er stundum svolítið erfiður.  Alltaf þegar ég er að takast á við eitthvað í okkar parsambandi (sem er rótgróið, nærandi og traust) þá er ég að takast á við mig sjálfann en ekki hana. Ég er að takast á við mína minnimáttarkend, mína meðvirkni, mína æsku og áhrif alkahólisma föður míns á æsku mína. Ég er aldrei að takast á við hana.

En hvernig fer maður þá að því að gefa og þyggja ást. Sjálfur elska ég konuna mína meira en ég get nokkurn tíma sett í orð. Við höfum verið í ástarsambandi í rúm 30 ár og alltaf átt gott samband. Við erum bestu vinir, hún er sannarlega sálufélagi minn, við getum talað saman og þagað saman, hlegið saman og grátið saman, hangið heima yfir engu og ferðast heimsálfa á milli og alltaf notið þess að elska hvort annað og að vera saman. Eitt sem ég segi gjarnan við mína skjólstæðinga er að öll þau ár sem við hjónin höfum verið saman þá hefur hún aldrei nokkur tíma pirrað mig. Margir reka upp stór augu þegar ég segi þetta og sumir segja beint út að ég hljóti að vera að ljúga. En ég er alls ekki að ljúgja neinu. Þetta er dagsatt. En reyndar bara hluti sögunnar, því að ég hef oftar en mér finnst gaman að muna eftir pirrað mig á henni. En hún hefur aldrei pirrað mig. Það getur nefnilega enginn pirrað mig nema ég sjálfur. Það getur heldur enginn „afpirrað“ mig nema ég sjálfur. Og það sama gildir um þig. Maki þinn getur ekki pirrað þig. Það er bara þú sem getur pirrað þig. Og þegar það gerist þá berð þú ábyrgð á að jafna þig á pirringnum og komast yfir hann án þess að særa maka þinn um leið.

En hvernig fer maður að því að hætta pirringnum? Elinor Roosevelt, fyrrverandi forstefrú í BNA, sagði eitt sinn: „Það er auðveldara að kveikja á kerti en formæla myrkrinu“. Ljósið sigrar alltaf myrkrið. Þegar ég verð pirraður út í konuna mína þá er það yfirleitt vegna þess að ég er að leyfa einhverju tilfinningalegu myrkri að hreiðra um sig. Og þá er gott að kveikja á tilfinningalegu kerti. Það gerir ég meðal annars með því að minna mig á af hverju ég elska konuna mína. Um leið og ég geri það rennur pirringurinn úr kerfinu mínu og ég átta mig að það er alls ekki sjálfgefið að fá að elska og vera elskaður. 

Flest pör sem leita til mín hafa einhvers staðar á leiðinni farið að líta á þessa miklu gjöf sem sjálfsagða og hafa því smá saman leyft tilfinningalegu myrkri að breiða úr sér. Við þurfum að muna að það er ekki sjálfgefið að fá að elska og það þarf að leggja rækt við þessa stórkostlegu tilfinningu. Slík ræktarsemi kostar vilja og vandvirkni, athygli og áhuga. Athylgi gangvart tilfinningum maka þíns og áhuga á sambandinu. Við þurfum að vilja byggja upp sambandið og það þarf að vanda sig við þá vinnu. Samband verður ekki gott að sjálfu sér, það þarf að gera sambandið gott. Og það kostar. 

Theodór Francis Birgisson ráðgjafni hjá Lausninni.
Theodór Francis Birgisson ráðgjafni hjá Lausninni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda