Í brúðkaupsblaðinu sem fylgir Morgunblaðinu í dag má finna nokkur skotheld ráð frá Margréti Erlu Maack þar sem hún kennir lesendum að skipuleggja flott gæsa- eða steggjapartí.
Margrét mælir með að notast við Facebook-hópa þegar dagurinn er undirbúinn. „Þetta er frábær vettvangur til að skipuleggja slíkan dag og er betri en spjall eða tölvupóstur. Best er að þrír til fjórir einstaklingar sjái um skipulagið eftir að hugmyndum hefur verið kastað fram,“ útskýrir Margrét. Hún varar fólk þá við að búa til of stíft prógramm. „Best heppnaða dæmið sem ég hef verið með í var „tjill“ í sumarbústað. Fyrir upptekið fólk sem er í óðaönn að skipuleggja brúðkaup er dagur sem er fullur af hasar ekki eins spennandi og slökun í sólarhring í góðra vina hóp.“
Eitt stórt partí eða mörg lítil?
Það er svo þess virði að skoða hvort hægt sé að brjóta gæsunar- eða steggjunargleðina upp, þar sem sumir eiga nokkra vinahópa að sögn Margrétar. „Það hefur stundum gengið illa að samþætta hvað mismunandi vinahópum finnst sniðugt og svo þekkja vinahóparnir mismunandi hliðar á viðkomandi. Það er ekkert að því að hafa tvo eða þrjá minni daga þar sem mismunandi vinahópar gera eitthvað skemmtilegt. Og munið, gæsa- og steggjapartí þurfa ekki að vera einkynja.“
Þessi ráð og fleiri má lesa í Brúðkaupsblaðinu.