„Framhjáhald er verknaður sem allir í parasamböndum og hjónaböndum vonast til að þurfa ekki að takast á við. Það er engu að síður dapur fylgifiskur lífsins og rúmlega tveir af hverjum tíu aðilum heldur framhjá einhvern tímann á lífsleiðinni. Þetta hlutfall á þó meira við um karlmenn þar sem konur halda að jafnaði síður framhjá. Konur nálgast þó karlana ef tekið er inn í myndina það sem kallast gæti tilfinningalegt framhjáhald en ekki bara kynferðislegt,“ segir Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. Í sínum nýjasta pistli skrifar hann um nokkur góð ráð sem ætti að nýtast fólki eftir framhjáhald:
Fjölmargar hliðar koma upp þegar um framhjáhald er að ræða. Hver er ástæða framhjáhaldsins? Af hverju heldur fólk framhjá maka sínum þrátt fyrir hve augljóslega það stangast á við almenn siðferðileg gildi, heiðarleika og traust? Fjölmargar kenningar eru um ástæðurnar, allt frá því að maðurinn hafi einfaldlega þá frumþörf að fjölga sér yfir í að sjálfsvirðing okkar sé svo léleg að við þurfum lítið annað en athygli eða hrós frá einhverjum til þess að við tökum jafn afdrifaríkar ákvarðanir. Inn í þessar umræður fléttast svo ávallt hvernig starfsettvangurinn virðist kjörinn vettvangur fyrir náin kynni sem þróast geta í óheiðarleg sambönd svo ekki sé nú talað um áfengisneyslu og skyndikynni af ýmsu tagi.
Þá er einnig rætt um skilgreiningar, hvað nákvæmlega er framhjáhald? Er það bara þegar það er orðið kynferðislegt eða á það líka til um aðrar gjörðir og hugsanir? Flestir geta verið sammála því að trúnaðarbrestur er orðinn ef náin tilfinningatengsl myndast milli aðila og/eða samskiptum er þannig háttað að þeim þarf að halda leyndum fyrir maka, hvort sem fólk hittist reglulega eða samskiptin fara fram á rafrænan hátt, eins og algengt er í dag.
Í raun má segja að ferli framhjáhalds sé í fjórum liðum sem skiptast í A: aðdragandann B:verknaðinn C: opinberunina (ef málið kemst upp) og D: úrvinnsluna.
Hvað sem ástæðum fyrir framhjáhaldi líður og hvernig sem við nákvæmlega skilgreinum framhjáhald þá er óhætt að segja að þegar aðili kemst að því að maki hans hefur gerst ótrúr, þá leiðir það af sér miklar og erfiðar tilfinningar. Þolendur upplifa áfall sem felur í sér hrylling og hjálparleysi, upplifa stjórnleysi í lífinu og um stund verður doði, tómleiki og jafnvel ógleði hluti af tilfinningunum. Einmannaleiki, skömm, kvíði, reiði og heift eru hluti tilfinninga sem blandast gjarnan þessum vonda kokteil og til að byrja með verða viðbrögð og ákvarðanir almennt ekki teknar í jafnvægi. Afleiðingarnar geta leitt til þess sem skilgreint hefur verið sem áfallastreituröskun og í versta falli leitt til sjálfsvígs.
Í mörgum tilvikum enda sambönd í kjölfar framhjáhalds og í raun nokkuð eðlilegt að það sé krafa þolandans. Áætlað er að um 25-50% hjónaskilnaða hafi með framhjáhöld að gera. Í langflestum tilvikum eru slíkar aðstæður mjög erfiðar fyrir báða aðila og þá sérstaklega ef aðilar eiga börn saman. Spurningarnar sem vakna eru til dæmis „Hvað verður um mig, get ég staðið á eigin fótum?“ og „Hvernig verður samband mitt við börnin?“ Þetta eru eðlilegar spurningar þar sem sú fyrri á oftar við um konur og sú síðari oftar um menn. Þessu fylgja einnig nýstandi hugleiðingar um þá staðreynd að aðrir aðilar komi að uppeldi barnanna auk þess sem tilhugsanir um að makinn verði með öðrum aðila eru eðlilega óþægilegar.
Þrátt fyrir að gjarnan sé valin sú leið að slíta sambandinu þegar framhjáhald kemur upp, þá eru fjölmargir sem láta á það reyna að halda áfram og vinna úr ástandinu. Af reynslunni mætti þó segja að oft sé það vel þess virði. Fjölmörg dæmi eru um að fólk sem vinnur úr slíkri reynslu, telur samband sitt sterkara fyrir vikið og sú erfiða og langa vegferð sem slík vinna er, getur á endanum bætt einstaklingana og sambandið sem þeir eru í. Til þess að það geti gerst þurfa báðir aðilar að vera tilbúnir í þessa vinnu af heilum hug. Gott er að leita til ráðgjafa sem getur stutt við vinnuna og boðið upp á hlutlausan vettvang til þess að ræða tilfinningar og skoðanir.
Þegar pör velja að vinna áfram að sambandinu í kjölfar framhjáhalds þá eru nokkur atriði sem nánast alltaf koma upp og gera vinnuna mun erfiðari en hún annars þyrfti að vera. Hér á eftir koma sex slík atriði.
Nr. 1:
Gerandinn hættir ekki í samskiptum við aðilann sem hann hefur átt í sambandi við. Það er algjört lykilatriði að öllum samskiptum ljúki tafarlaust við aðilann sem gerandinn hefur verið í tygjum við. Ekki er óalgengt að gerandinn upplifi sorg og söknuð við að slíta samskiptum, sérstaklega þegar sambandið hefur staðið yfir í einhvern tíma. Af augljósum ástæðum getur það þó aldrei farið saman að byggja upp samband og að vera í sambandi við aðila sem átti hlut í framhjáhaldinu.
Nr. 2:
Gerandinn heldur gjarnan eftir upplýsingum eða lýgur til þess að verja sig og aðra sem málinu tengjast, af ótta við að upplýsingarnar leiði endanlega til sambandsslita. Reynslan er sú að því fyrr sem gerandinn leggur spilin á borðin, því fyrr er hægt að fara í uppbygginguna. Ef nýjar upplýsingar eru að skjóta upp kollinum þegar vinnan við uppbyggingu er hafin, leiðir það óhjákvæmilega til mikillar tortryggni og endurtekinna áfallaviðbragða þolandans. Það ýtir enn frekar undir þráhyggjukenndar hugsanir sem þolandinn er óhjákvæmilega með í tengslum við atburðinn og hvort makanum geti í raun og veru einhverntímann verið treystandi.
Nr. 3:
Gerandinn bregst illa við síendurteknum umræðum um atburðinn og kröfu makans um að vita hvað nákvæmlega gerðist. Gerandinn upplifir vonandi heilbrigða skömm og eðlilegt að honum finnist það mjög erfitt. Gerendur vilja sem minnst ræða verknaðinn og helst af öllu gleyma og halda áfram. Það er engan veginn ásættanlegt í svona málum og því reynir á gerandann að sýna maka sýnum skilning á því að þolandinn þarf að ná utan um upplýsingarnar til þess að geta minnkað þráhyggjukenndar hugsanir og tortryggni sem fylgir trúnaðarbrotinu. Þolendur festast í að sjá fyrir sér atburði, jafnvel umfram það sem átti sér stað og því yfirleitt best að segja satt og rétt frá, því ímyndunarafl þolandans fer jafnvel enn lengra en það sem raunverulega gerðist.
Nr. 4:
Gerandinn verður óþolinmóður og pirraður vegna þess að makinn jafnar sig ekki eins fljótt og gerandinn vonast eftir. Það er mjög mismunandi hvað einstaklingur er lengi að jafna sig eftir að maki hans heldur framhjá honum. Í raun má segja að hlutirnir verði aldrei eins en útkoman getur þó verið góð eins og áður kom fram. Það tekur langan tíma að komast yfir verstu tilfinningasveiflurnar, þær koma í bylgjum og mjög eðlilegt að það líði að minnsta kosti eitt ár áður en sveiflunum fer að fækka og áhrif þeirra að minnka. Þetta er mikilvægt að báðir aðilar séu meðvitaðir um og taki fullt tillit til þess, sérstaklega gerandinn.
Nr. 5:
Þolendur varpa gjarnan reiði sinni og ábyrgð yfir á manneskjuna sem tók þátt í framhjáhaldinu með makanum þeirra í stað þess að láta makann bera ábyrgðina. Það getur sýnst þægilegt að gera viðhaldið að sökudólg og ekki ólíklegt að gerandinn ýti undir að það til þess að létta sér lífið. Það getur komið í veg fyrir að uppbyggingin sé byggð á traustum grunni. Til þess að hægt sé að byggja upp samband er mikilvægt að gerandinn sjái sinn hlut, gangist við honum og beri ábyrgð á því sem hann hefur gert. Að öðrum kosti gæti hann lifað í ákveðinni afneitun á afleiðingar framhjáhaldsins og tekst síður á við sjálfan sig.
Nr. 6:
Þolandinn telur sig hafa rétt á að koma illa fram við gerandann vegna brotsins og beitir hann andlegu og/eða líkamlegu ofbeldi. Það er fullkomlega eðlilegt að gerandinn sýni iðrun, skammist sín og sé auðmjúkur í garð maka síns eftir að hafa verið ótrúr. Það er líka eðlilegt að þolandinn sýni tilfinningar sínar, fái útrás fyrir þeim og geti misst stjórn á tilfinningum sínum. Það réttlætir hinsvegar ekki að þolandinn noti tækifærið og beiti ofbeldi. Slík framkoma getur orðið að vana og leiðir til skaða þegar fram í sækir. Bæði veldur hún því að ójafnvægi myndast í verðmæti einstaklinga í sambandinu, virðing og traust á erfiðara uppdráttar og getur leitt til þess að þolandi ofbeldisins fer að lokum úr sambandinu, sem ónýtir tilgang þeirrar vinnu sem varið hefur verið í uppbyggingu sambandsins.
Sú vinna sem fylgir uppbyggingu sambands eftir framhjáhald er krefjandi og tekur langan tíma. Umbunin getur verið sú að einstaklingar sem leggja slíka vinnu á sig koma almennt sterkari úr henni og í mörgum tilvikum geta sambönd þeirra orðið sterkari með reynsluna að baki. Það er jákvæð niðurstaða rannsókna fyrir þá sem fjárfesta í slíkri vinnu að um 80% þeirra sem halda framhjá, gera það ekki oftar en einu sinni.