Gefandi að hjálpa unglingum í neyð

Sigríður Lára Haraldsdóttir er í krefjandi en skemmtilegu starfi sem …
Sigríður Lára Haraldsdóttir er í krefjandi en skemmtilegu starfi sem deildarstjóri á skammtímaheimili fyrir unglinga sem Barnavernd Reykjavíkur rekur. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Sigríður Lára Haraldsdóttir, kennari, náms- og starfsráðgjafi, pmto-ráðgjafi, jógakennari og nemi í fjölskyldumeðferð, starfar sem deildarstjóri á skammtímaheimili fyrir unglinga sem Barnavernd Reykjavíkur rekur. Sigríður, eða Sigga Lára eins og hún er gjarnan kölluð, sem hefur brennandi áhuga á öllu sem viðkemur samskiptum og uppeldi, segir starfið vera krefjandi, meðal annars vegna þess að í því fær hún innsýn í erfiðar heimilisaðstæður. En starfið er líka skemmtilegt og gefandi að sögn Siggu Láru enda tekur hún þátt í að finna lausnir á vandamálum og meta framhaldið fyrir unglingana sem dvelja á skammtímaheimilinu.
Skammtímaheimilið er í Breiðholti og er ætlað unglingum á bilinu 13 til 18 ára sem vantar samastað í allt frá einni nótt til þriggja mánaða. Félagsráðgjafar Barnaverndar Reykjavíkur stýra málum þeirra og vista þá á skammtímaheimilinu. „Þetta geta verið nokkrir dagar, vikur eða mánuðir. En við reynum að hafa þetta aldrei meira en þrjá mánuði þar sem þetta er hugsað sem skammtímaúrræði á meðan verið er að finna varanlegri lausn og meta hvert næsta skref er. Stundum fara þessir krakkar aftur heim, stundum fara þau í fóstur, stundum eru þau að fara í meðferð eða eitthvað annað. Það er allur gangur á því,“ útskýrir Sigga Lára.
Að sögn Siggu Láru eru mjög misjafnar ástæður fyrir því að unglingar þurfa að dvelja á skammtímaheimilinu. „Oftast er um einhvern samskiptavanda á heimilinu að ræða. Annaðhvort eru það krakkarnir sem sýna einhverja hegðun sem foreldrarnir treysta sér ekki til að ráða við eða þá að vandinn snýr að foreldrunum og þá koma börnin hingað í skjól frá aðstæðum heima við.“
Á skammtímaheimilinu eru fjögur svefnherbergi en eitt herbergið er kallað bráðaherbergi. „Það á að vera að mestu laust ef upp kemur neyðartilfelli því stundum fáum við börn hingað með mjög skömmum fyrirvara, jafnvel á nóttunni. Þannig að það eru þrjú herbergi sem eru ætluð til „langtíma“, fjögur í heildina.“ Á heimilinu eru svo oftast tveir starfsmenn á vakt hverju sinni. En hvað tekur við þegar börnin koma á skammtímaheimilið? „Það er í raun ekkert sérstakt prógramm sem fer í gang, hvert mál er einstakt og þetta er búseta. Þannig að þau eru ekki í neinni eiginlegri meðferð hérna hjá okkur. Þau eru kannski í sálfræðimeðferð eða einhvers konar úrræðum annars staðar en þetta er bara fyrst og fremst heimili. Þótt þetta sé stofnun og vaktaskipt heimili þá reynum við að hafa þetta eins heimilislegt og við getum. Við reynum að vinna bara svolítið eins og foreldrarnir myndu vinna. Við sjáum sem sagt til þess að þau mæti í skólann eða vinnuna, eins eiga þau að koma heim og borða kvöldmat, það eru útivistarreglur hérna, þau fara upp í herbergi á ákveðnum tíma og á morgnana eru þau vakin á ákveðnum tíma þó að þau séu ekki að fara að mæta í skóla eða vinnu. Þannig að við reynum að viðhalda rútínu og fylgja því eftir að þau komi heim á kvöldin því stundum eru þetta krakkar sem hafa ekki verið að skila sér heim á nóttunni,“ segir Sigga Lára. Hún segir að þótt engin bein meðferð eigi sér stað á heimilinu gerist heilmikið í gegnum daglega lífið þar sem einblínt er á að krakkarnir fái tækifæri til að tala við starfsfólk og að þau haldi rútínu.
Sigga Lára segir að nýtt umhverfi geti reynst þeim sem dvelja á skammtímaheimilinu mjög vel. „Að fá smá pásu og að komast í nýtt umhverfi er hjálplegt. Þegar aðilar fá smá pásu frá neikvæðum samskiptum fá þau rými til að átta sig og þá er oft hægt að fara að vinna einstaklingana saman aftur. Þegar málin eru orðin þannig á heimilinu að þau geta ekki verið heima er oft kominn upp vítahringur og foreldrarnir og börnin eiga bara svo erfitt með að tala saman. En hérna er þessi vítahringur náttúrlega ekki búinn að myndast þannig að oft eiga þau auðveldara með að fylgja reglum hér þó að þau séu búin að vera að brjóta af sér heima, en það er ekkert algilt.“

Sigga Lára segir þetta vissulega geta verið mikið viðbrigði fyrir krakka að koma inn á heimili þar sem eru skýrar reglur og ákveðinni rútínu er fylgt. Hún segir þó að börnin séu nokkuð frjáls og þau eru ekki neydd til að gera eitt né neitt, þannig séð. „Þau geta til dæmis alveg farið út ef þau vilja, við stöndum ekki í dyrunum fyrir þeim. Ef þau ætla sér að stinga af eða koma ekki heim, þá gera þau það. En við reynum að sjálfsögðu að tala þau til, við gerum þeim grein fyrir hvað það þýðir að brjóta reglur, það eru afleiðingar og þau vita það. Þau vita þegar þau brjóta reglur og að ráðgjafinn fylgir því þá eftir. Eins er bakvakt Barnaverndar látin vita ef krakkarnir koma ekki heim á nóttunni.“

Erfitt að vera unglingur í óvissu

Sigga Lára segir afar misjafnt hvernig unglingarnir sem koma á skammtímaheimilið taka vistinni. „Það er auðvitað mjög erfitt að vera unglingur almennt, því fylgir mikið áreiti,“ útskýrir Sigga Lára og tekur jafningja, skólann, samfélagsmiðla og heimilislíf sem dæmi. „Og ég held þess vegna að það sé ofboðslega mikilvægt að hlusta á þau og reyna að setja sig í þeirra spor á sama tíma og maður setur mörkin á hlýjan máta. Það þarf að finna ákveðið jafnvægi en það sem við leggjum mesta áherslu á er að koma fram við börnin af virðingu og að þau upplifi öryggi.“

Sigga Lára segir óformlega meðferð þar sem hlustað er á og spjallað við krakkana reynast mjög vel. „Við erum ekki að þrýsta á þau að ræða það sem þeim liggur á hjarta, en oftast líður þessum krökkum illa og stundum finna þessir krakkar að þau geta treyst þeim sem eru hérna. Þá ræða þau við okkur af miklum trúnaði og trausti, og þannig er hægt að gera helling. Svo fá unglingarnir líka ákveðið hlutverk í þessari rútínu sem er hérna og það hjálpar þeim. Þau fá t.d. það verkefni að þrífa herbergin sín og halda efri hæðinni hreinni. Um helgar er svo haldið kósíkvöld fyrir þá sem hafa áhuga á að taka þátt í því,“ segir Sigga Lára sem leggur áherslu á að heimilislífið sé sem eðlilegast. „Í langflestum tilfellum eru þessir einstaklingar að fara aftur inn á heimili, hvort sem þau eru að fara aftur heim til sín eða á fósturheimili, þannig að við viljum viðhalda þessu sem þykir eðlilegt að sé í gangi á heimilum,“ útskýrir Sigga Lára sem segir þetta úrræði hafa hjálpað mörgum. „Stundum sér maður þvílíka breytingu á börnunum, bara við það að komast í svona hlutlaust svæði. Sérstaklega þegar það er búið að vera mjög erfitt heima. En svo hefur maður alveg líka séð það að barn er kannski of lengi í óvissunni, til dæmis af því að viðeigandi úrræði er ekki til, og það er líka mjög slæmt. Þá sér maður breytingu niður á við. Ímyndaðu þér bara að vera 14 eða 15 ára og þú veist ekki hvort þú ert að fara aftur heim til foreldra þinna eða hvort þú ferð á fósturheimili, hvort þú verður í Reykjavík eða úti á landi, þú veist ekkert. Það er krefjandi, sérstaklega á þessum aldri og þegar mikið er búið að ganga á.“

Sigga Lára segir algengt að þeir unglingar sem koma inn á skammtímaheimilið finni fyrir höfnunartilfinningu. „Það er erfitt að koma inn á skammtímaheimili. Og það er erfitt að sætta sig við að maður geti hreinlega ekki verið heima. Stundum halda unglingarnir að mamma og pabbi vilji ekki hafa þau heima og þá finna þau fyrir höfnunartilfinningu, jafnvel þó að þeim líði vel hérna. En það er vont að vera í óvissu og auðvitað vilja þau finna fyrir stöðugleika.“ Sigga Lára segir börnin vera undirbúin þegar þau koma inn á heimilið og þeim gert það ljóst hvað sé fram undan. „Við nefnum við krakkana í upphafi að nú muni þau hitta fullt af nýju fólki og vissulega getur það verið óþægilegt. Og við nefnum það líka að það er allt í lagi að tala meira við þennan heldur en hinn, krakkarnir þurfa ekkert að opna sig við allt starfsfólkið og þau vita það. Og við látum þau vita að það sé ekki verið að njósna um þau heldur erum við hérna til að aðstoða. Þau geta alltaf leitað til okkar ef þeim liggur eitthvað á hjarta en við erum ekki að yfirheyra þau, ekki nema það sé eitthvað þess eðlis. En svo förum við líka fram á að virðingin sé gagnkvæm, eins og t.d. ef þau eru að fara út, þá viljum við að þau komi til okkar og láti okkur vita. Við spyrjum þau alveg hvert þau séu að fara og með hverjum, við reynum að kynnast vinum þeirra. En við erum ekkert að þvinga neitt fram því við vitum að þetta er erfitt.“

Freistandi að taka öll börnin með sér heim
Spurð út í starfið sjálft segir Sigga Lára það vissulega geta verið erfitt. „Það er krefjandi að vissu leyti. Maður þarf sem dæmi að temja sér ákveðna vörn og brynja sig svolítið því þessi börn eru oft í alveg ofboðslega erfiðum aðstæðum og foreldrarnir líka, þetta eru oft rosalega erfið mál því það þarf mikið að hafa gengið á til að barn komi inn á skammtímaheimili. Og það er freistandi að taka þau bara öll heim og hjálpa þeim, en maður gerir víst meira gagn með því að mæta í vinnuna á hverjum degi en ef ég myndi taka eitt barn með mér heim. Þegar maður fer heim þá er maður bara heima hjá sér. En auðvitað kemur það alveg upp að maður er heima og er að hugsa um aðstæður einhvers barns. Það þarf samt að hafa skýr mörk á milli vinnu og einkalífs og maður þarf að finna þennan gullna meðalveg í hversu nálægt maður hleypir þeim að sér. Það er ekki alltaf auðvelt. Það er ákveðinn lagarammi sem barnaverndin þarf að vinna eftir og við vinnum í takt við það. Maður þarf að átta sig á að stundum getur maður bara ekki gert meira en akkúrat það, það getur verið erfitt að sætta sig við það. En ef maður ætlar að endast í þessu starfi þá þarf maður að skoða það sem maður getur raunverulega gert.“ Það getur verið erfitt að sleppa takinu að sögn Siggu Láru, sérstaklega í ljósi þess að það er engin eftirfylgni af hendi skammtímaheimilisins þegar börnin yfirgefa heimilið. „Nei, þau koma bara hingað og búa hérna og svo tekur næsta úrræði við, eða þá að þau fara heim aftur og maður hefur ekkert meira um það að segja. En stundum koma þau aftur til okkar. Oft fréttum við svo hvernig gengur hjá þeim og það metum við mikils.“
Að lokum vill Sigga Lára hvetja fólk til að vera óhrætt við að leita sér hjálpar ef því finnst það þurfa á henni að halda. „Því fyrr því betra,“ segir Sigga Lára því oftar en ekki verða vandamálin viðameiri eftir því sem tíminn líður án þess að tekið sé á málunum. „Maður sér því miður oft dæmi um vandamál sem eru orðin rosalega stór en hefðu kannski verið mjög einföld hefði verið gripið inn í strax. Það er sorglegt því það er svo ótrúlega margt sem hægt er að gera. Vissulega getur verið erfitt að viðurkenna að vandamál sé til staðar og fólk vonast gjarnan til að vandamálið lagist með tímanum. En ef maður bara horfir á fjölskyldur almennt þá eru allir að díla við eitthvað og það er allt í lagi að viðurkenna það. Það er erfitt en fólk er bara mannlegt og það gera allir mistök. Mikilvægast er svo að líta fram á við í staðinn fyrir að horfa alltaf á það sem áður var. Það er ekkert einfalt að ala upp barn og það er í lagi að fá hjálp,“ segir Sigga Lára að lokum. Hún minnir á að það er til margs konar aðstoð og meðfylgjandi er listi með dæmum um hvert foreldrar geta leitað þegar vandamál með samskipti og uppeldi koma upp.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda