Hittast og ræða dauðann

Rósa Kristjánsdóttir djákni segir umræðurnar sem skapast á fundunum jafnan …
Rósa Kristjánsdóttir djákni segir umræðurnar sem skapast á fundunum jafnan fróðlegar og skemmtilegar. Ljósmyndari / Þorkell Þorkelsson

„Okkur finnst svo mikið tabú í samfélaginu að tala um dauðann. Við fundum því kaffihús og spurðum hvort við mættum prófa þetta hjá þeim, en þetta er annað árið sem við erum með þessar samverur,“ segir Rósa Kristjánsdóttir djákni en hún hefur undanfarið ár vanið komur sínar á svokallað dauðakaffi. Þetta er annað árið sem það er haldið eða frá janúar 2016.

Dauðakaffi eru umræðufundir sem haldnir eru á kaffihúsum, en þar kemur fólk saman, fær sér kaffi og köku og ræðir dauðann. Tilgangur fundanna er að stuðla að opinni umræðu um málefnið, sem margir eru feimnir að ræða.

„Það var greinilega mikill áhugi, því þegar við héldum þetta í fyrsta skipti mættu um 40 manns. Við urðum alveg steinhissa, en þetta sagði okkur að fólk langar að setjast niður og tala um dauðann, upplifanir sínar og skoðanir. Það eina sem við tökum fram er að við erum ekki að koma til þess að ræða erfiða lífsreynslu eftir dauða einhvers. Auðvitað kemur það stundum upp, fólk fer að ræða einhvern sem það hefur misst og hvernig dauða þeirra bar að. En þetta er ekki stuðningsúrræði fyrir syrgjendur,“ bendir Rósa á.

Dauðakaffi eru umræðufundir sem haldnir eru á kaffihúsum, en þar …
Dauðakaffi eru umræðufundir sem haldnir eru á kaffihúsum, en þar kemur fólk saman, fær sér kaffi og köku og ræðir dauðann. Ljósmynd / Getty Images

Jafnan mikið hlegið á fundunum

Mörgum þykir dauðinn eflaust vera niðurdrepandi umræðuefni, og margir hverjir forðast í lengstu lög að ræða hann. En hvers vegna telur Rósa að fólk mæti í dauðakaffi og hvernig fólk er það sem venur komur sínar á fundina?

„Þetta er bara fólk eins og ég og þú. Ástæðan fyrir því að við fórum að hittast er sú að í aðstæðum þar sem dauðinn er yfirvofandi, og aldrei hefur verið rætt um hann, verður oft svo flókið að tala um staðreyndir málsins. Þarna kemur fólk til þess að ræða hvernig það vill ímynda sér dauðann. Ég hef til dæmis sjálf spurt mig hvort ég kvíði honum. Þannig að þetta eru mjög uppbyggilegar og góðar umræður. Það er mikið hlegið og það sitja ekki allir þarna með sorgarsvip og ræða málefnið,“ segir Rósa.

 „Ég hef setið við borð með mjög ungri konu sem kom með litla barnið sitt, en hún sagði að henni þætti bara svo spennandi að ræða þetta. Þetta snýst fyrst og fremst um það að ræða við fólk sem hefur sama áhuga á málefninu og þú, en þú færð ekki uppskrift að því hvað eigi að tala um,“ segir Rósa og bætir við að tveir til þrír stýrendur séu þó viðstaddir fundina, ef grípa þurfi inn í.

Það er list að deyja

 „Dauðinn er hluti af lífinu, en við höfum verið ofboðslega feimin við að ræða hann. Og erum það enn. Þetta er viðleitni nokkurra aðila til þess að efla umræðuna. Það er nefnilega list að deyja. Það er vettvangurinn, að deyja á góðan máta eins og þú sjálfur kýst. Ef þú ert búinn að venja þig á að tala um dauðann, heima hjá þér, í dauðakaffi eða einhvers staðar, áttu kannski auðveldara með að ræða hann við ástvini þína þegar þar að kemur.“

Rósa segir að umræðurnar séu jafnan áhugaverðar og uppbyggilegar, og að tíminn hreinlega fljúgi áfram.

„Umræðurnar eru áhugaverðar, og ég leyfi mér alveg að segja skemmtilegar. Mörgum finnst það mjög undarlegt að maður noti það orð, en það lýsir eflaust viðhorfinu. Og ég veit að sumir halda að þetta hljóti að vera skrýtið fólk sem þarna kemur saman. Það er líka allt í lagi, við erum öll ólík. Mér sjálfri finnst þó gott að þessi umræða fari fram og reyni því að missa ekki af þessum kvöldum,“ segir Rósa að endingu.

Frekari upplýsingar um dauðakaffi má finna á Facebook en næsta dauðakaffi verður haldið 23. mars á Café Meskí.

Rósa segir umræðurnar skemmtilegar og fræðandi, og alls ekki niðurdrepandi.
Rósa segir umræðurnar skemmtilegar og fræðandi, og alls ekki niðurdrepandi. Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda