Það ljótasta og fallegasta í fari fólks

Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.

„Árið 2015 var það langerfiðasta í lífinu. Harður lífsins skóli. Skrýtið að undir verstu kringumstæðum virðist víðfrægt lögmál Murphy´s fara í gang. Á mínum erfiðasta tíma, sumarið 2015, reið yfir hvert áfallið á eftir öðru. Það er fyrst núna sem ég sé þau í skýrara ljósi. Í þessum pistli langar mig að fara yfir eitt þeirra í stuttu máli. Um viðskilnað minn við fyrrverandi vinnuveitanda. Samkvæmt ráðleggingum lét ég vera að velta þessu fyrir mér á meðan ég var sem mest veikburða. Þegar ég komst í betra andlegt jafnvægi fór ég að vinna úr þessu máli, sem er kveikjan að þessum skrifum. Fyrir utan mína reynslusögu vona ég að pistillinn veki athygli á hversu mikilvægt það er að móta og viðhalda heilbrigðu andrúmslofti og starfsumhverfi á vinnustöðum,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli: 

Ég er ágætlega menntaður og með yfir 20 ára starfsreynslu. Unnið við að hjálpa fyrirtækjum að ná betri árangri í skipulagi og stjórnun. Starfað fyrir og hjá mörgum fyrirtækjum og alltaf unnið náið með starfsfólki og stjórnendum. Kynnst litlum fyrirtækjum upp í stór alþjóðleg fyrirtæki og ferðast víða um heim. Kynnst ólíkri menningu innan fyrirtækja, landa og heimsálfa. Ég bý því yfir töluverðri reynslu af mannlegum samskiptum á vinnustöðum. Tel mig vita hvað sé „eðlilegt“ samband á milli stjórnenda og starfsmanna og á milli stjórnenda!

Margt hef ég séð og heyrt í gegnum starfsferil minn. Minn síðasti vinnustaður er sér á báti. Óheilbrigðasti vinnustaður sem ég hef kynnst. Þar varð síðasta áfallið mitt á árinu 2015. Ég hafði um 4 ára skeið unnið við spennandi verkefni sem var mikil áskorun. Að skipuleggja starfsemina á ný í hólf og gólf. Verkefninu lauk formlega í byrjun árs 2015. Frábær árangur miðað við erfiðar aðstæður.

Við að rifja þetta mál upp mundi ég eftir grein sem ég las í námi og heitir „Teaching Smart People How to Learn“. Er um rannsókn á nemendum úr Harvard-háskólanum að ræða sem voru komnir í stjórnunarstöður. Niðurstaðan var að því „hærra“ sem stjórnandi var settur, þeim mun minna hlustaði hann á undirmenn. Þeir urðu uppteknir af að verja eigin hag og gættu þess þ.a.l. að undimenn vissu ekki meira en þeir. Áttu til að hundsa þekkingu þeirra. Það er engin tilviljun að þessi góða grein minnti mig á vinnustaðinn minn. Ég varð vitni að og lenti sjálfur í atvikum sem voru hreint út sagt súrrealísk hvað mannleg samskipti og framkomu varðar.

Sumarið 2015 lenti ég á vegg. Ég brann yfir (burn out – kulnun). Orku- og kraftlaus. Þá, ómeðvitaður, búinn að þróa veikindi krónískrar áfallastreituröskunar í 2 ár. Mér tókst samt að sinna starfi mínu vel, frá sumri 2013, þegar fyrstu einkenni komu fram, til sumars 2015! Ég veit ekki hvernig ég fór að því. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig.

Hef nefnt áður að það var fyrst í byrjun september 2015 sem ég fékk að vita hvað væri að og þá um leið um hjálpina sem ég þurfti. Var aðdragandi að því. Í júlí 2015 er ég sendur í veikindaleyfi samkvæmt læknisráði. Samt grunlaus um hvað væri að en á þessum tímapunkti fengið taugaáföll og gat illa sofið. Sumarið líður og mér versnar stöðugt.

Mannauðsstjóri boðar mig á fund um miðjan ágúst 2015. Ég kom og bjóst við almennu spjalli um mína heilsu. Hugsaði að það gæti alla vega enginn tekið vinnuna frá mér. Þá hafði þegar mikið gengið á í lífinu. Ég skynjaði að meira bjó undir. Mannauðsstjóri tilkynnti mér að það hefði verið reynt að fá mig áminntan í starfi. Mér brá illilega. Honum fannst erfitt að segja frá þessu. Ég var orðinn svo illa farinn þarna að ég þoldi ekkert mótlæti og því stóráfall að heyra þetta. Auðvitað var ég ekki áminntur. Bannað að áminna starfsmann í veikindaleyfi og tilefnið ekkert! Ég var í litlu jafnvægi á fundinum en hélt aftur af mér. Þetta var kannski of súrrealísk upplifun?

Á þessum tímapunkti var búið að taka ákvarðnir um breytingar sem ég stóð m.a. fyrir, en féllu ekki öllum í geð. Ég trúi á það góða í fólki og hafði aldrei kynnst því að vera beittur markvissu undirferli á vinnustað. Einhver hafði náð, í minni fjarveru, að smita stjórnendahópinn, þ. á m. forstjóra. Ég var dæmdur án dóms og laga. Þegar heilsan var sem verst. Ég var búinn að ná góðum árangri og standa mig vel. Það vissu allir sem vildu. Einhver ákvað að ganga þessa leið til að koma á mig höggi, minnka trúverðugleika minn, níða mína persónu, til þess eins að koma í veg fyrir að mínar hugmyndir um breytingar yrðu að veruleika! Hef notað orðið súrrealískt hér. Það liggur við að það sé of vægt við að upplifa þetta. Það hafði allan tímann í verkefninu gengið ýmislegt á og við upphaf þess munaði engu að það yrði blásið af. Gekk mikið á á vinnustaðnum vorið 2012 þegar nýr forstjóri tók við. Fyrrverandi forstjóri var aðilinn sem bakkaði mig og þetta verkefni upp. Það tók allt sumarið 2012 að endurræsa verkefnið.

Það er ofar mínum skilningi og mannúðarsjónarmiðum að samstarfsfólki fari þessa leið. Alltaf þegar verið er að breyta er oftsinnis tekist á og fólk ekki sammála. Þrátt fyrir yfirlýstan vilja um stuðning við tillögur að breytingum kom í ljós að það reyndust hjá sumum orðin tóm. Mín tilfinning segir að mín þekking og reynsla hafi ógnað sumum. Tillögur að breytingum byggðust á mikilli, djúpri og faglegri greiningu. Svo virðist sem ég væri hreinlega fyrir þeim sem ekki vildu breyta neinu. Í veikindaleyfinu opnaðist því glufa til að höggva í mig!

Mannauðsstjóri gerði mér ljóst á fundinum að mín biði svakalegur leðjuslagur þegar ég kæmi til baka. Tók skýrt fram að ekkert myndi breytast og hvorki ég né hann fengjum við það ráðið. Nýjar ákvarðanir þegar verið teknar. Vitandi um heilsufar mitt þá óbeint ráðlagði hann mér starfslok því ég hefði ekkert í slaginn að gera. Mannauðsstjóri var einfaldlega að segja að ég ætti ekki afturkvæmt á vinnustaðinn. Ég var sem sagt að missa vinnuna líka! Nákvæmlega það sem ég þurfti á þessum tímapunkti í lífinu!

Einhvern tímann hefði ég ekki látið ganga yfir mig á þennan hátt. Þarna var ég svo brotinn að ég gat það ekki. Nauðugur viljugur átti ég ekki annan valkost. Snúin staða því ekki var hægt að segja mér upp. Ég var beðinn um að reka mig sjálfur! Sú ákvörðun var mjög erfið. Í fyrsta sinn setti ég heilsuna í forgang. Mannauðsstjóri síendurtók að ég hefði staðið mig mjög vel og yrði sárt saknað. Mér þótti vænt um að heyra það. Hann hjálpaði mér að ganga frá sanngjörnum starfslokum sem ég mat mikils.

Mér finnst það enn út úr kú að yfirgefa vinnustað, hafa staðið mig vel, og með skriflegan vitnisburð um frábæran árangur í formi meðmælabréfs! Þetta er ójafna!

Ég er stoltur af mér. Þetta var auðmýksta ákvörðunin sem ég hef tekið um ævina. Taka heilsuna fram yfir starf. Sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt. Það er ekki veikleiki heldur styrkleiki. Meira gat ég ekki misst eftir 2 ára veikindi. Þetta var erfitt, sárt og sorglegt. Eftir þennan fund fékk mitt versta ofsakvíða- og panikkast. Ég gat ekki meira en fyrir guðs mildi auðnaðist mér að fá hjálp nokkrum dögum síðar. Sem var upphafið að endurhæfingunni.

Sé það skýrt í dag að þetta ár, 2015, var doktorsnám í lífinu! Meiri lærdómur en allt mitt nám, starfsreynsla og lífsreynsla. Ég kynntist því ljótasta og fallegasta í fari fólks. Á vinnustaðnum er gott fólk sem mér þykir vænt um. Ef skemmdu eplin eru ekki tekin í burtu þá skemma þau út frá sér.

Ég átti svo val. Velta mér upp úr reiði og gremju eða draga lærdóm. Ég flokka ekki fólk sem ljótt. Ég trúi að við séum öll góð og viljum vel. Sumum gengur illa að sýna það. Manneskjan hagar sér stundum líkt og villidýr. Rótin er oftast ótti. Óttinn fær mannshugann til að taka ótrúlegustu ákvarðanir. Að sýna auðmýkt og svara ekki í sömu mynt er merki um þroska. Ég get ekki breytt framkomu annarra en ég stjórna mínum viðbrögðum. Gagnvart þessum aðilum þá ber ég ekki kala til þeirra. Ég býð þeim ekki í afmælið mitt en mun fyrirgefa. Við erum öll manneskjur með okkar breyskleika. Það virði ég. Að lifa í reiði og gremju er ekki eftirsóknarvert. Það er eitur hugans.

Lifið heil. Aðgát skal ávallt viðhöfð í nærveru sálar. Enginn veit hvort eða við hvað næsta manneskja er að glíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda