Sunna Guðmundsdóttir og unnusti hennar, Jón Orri Sigurðarson eiga saman strákana Hrafnkel Orra fjögurra ára og Kormák Kára þriggja ára. Sunna og Jón Orri fóru nýstárlega leið þegar þau völdu nafn á þann yngri. Sunna útskýrði aðferðina fyrir Smartlandi.
Fóru þið sömu leið þegar þið ákváðuð nöfnin á drengina ykkar?
Nei við fórum ekki alveg sömu leið. Í fyrra skiptið fórum við hvort í sínu lagi yfir listann á nafn.is, vefsíðu sem inniheldur öll nöfn sem til eru, sem endaði í einhverjum tuttugu nöfnum og við völdum nafnið Hrafnkell Forni út frá því. Hins vegar, daginn fyrir skírnina, snerist okkur hugur og við hringdum í bakarann og báðum hann um að breyta merkingunni á kökunni í Hrafnkel Orra.
Í seinna skiptið gátum við ekki verið sammála, við fórum í gegnum nafn.is aftur og notuðum líka nafna-appið Nefna, þar sem nöfnin eru flokkuð eftir ýmsum flokkum, t.d. biblíunöfnum, landnámsnöfnum og vinsældum en allt kom fyrir ekki, við komumst ekki að neinni niðurstöðu.
Ég var kasólétt sumarið 2014 og HM karla í fótbolta var í fullum gangi, við fylgdumst spennt með keppninni, en þaðan fengum við innblástur fyrir nafnaútsláttarkeppni. Eins og með HM, þá völdum við 16 úrvalsnöfn sem höfðu komist í gegnum nafn.is útsláttinn. Við drógum handahófskennt þau nöfn sem áttu að keppa í 16 liða úrslitum. Í hverri viðureign sögðum við á sama tíma það nafn sem við vildum fá áfram. Ef við vorum ósammála hringdum við í vin eða ættingja til að skera úr um sigurinn. Í úrslitum mættust svo nöfnin Kári og Már, þar bar nafnið Kári sigur úr býtum.
Til gamans þá læt ég listann fylgja með: Birtingur, Finnur, Grettir, Hákon, Héðinn, Hinrik, Hringur, Kári, Kolfinnur, Kormákur, Már, Sólbjörn, Sólmundur, Sebastían, Stormur, Týr.
Var ekkert erfitt að sjá einhver nöfn detta úr leik?
Jú það var frekar leiðinlegt hversu ósammála við vorum með nöfnin, ég var til dæmis mjög hrifin af Stormi, Sólmundi og Hring en Jón Orri var hrifinn af nöfnunum Birtingur og Kolfinnur.
Fóru þið eftir lokaúrslitunum eða hagrædduð þið úrslitunum eitthvað?
Við vildum bara skilja þetta eftir opið, sjá hvaða nafn passaði við barnið. En okkur fannst hann mjög Káralegur við fyrstu sýn.
Af hverju tvö nöfn?
Fyrstu dagana hét hann bara Kári. Ég vildi helst bara hafa eitt nafn, Kári Jónsson. En Jóni Orra fannst það vera bráðnauðsynlegt að barnið fengi tvö nöfn. Svo við völdum nafnið Kormákur í sameiningu (sem datt reyndar strax úr leik í 16 liða úrslitunum).