„Ég er þakklátur viðbrögðunum við síðasta pistli þar sem kveikjan var ljótar netárasir á ungan mann sem hélt ekki tárum af gleði yfir að hafa sungið fyrir framan fulla Laugardalshöll af fólki. Ungur karlmaður sýndi tilfinningar í beinni og fólki datt í hug að ráðast á hann með að nú væri líka hægt að grenja sig til sigurs í Eurovision. Miðað við ævintýranlegan fjölda sem virðast líka við pistilinn er bersýnilegt að fleirum en mér var misboðið og viðbrögðin jákvæð,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
Eftir að ég ritaði pistilinn hefur hugurinn reikað til baka um minn tilfinningalegan þroska í gegnum lífið, sem varð kveikjan að þessum pistli. Umfjöllunin hér gæti skarast á fyrri pistil en nú langar mig að reifa hugmyndir um hvað hægt sé að gera til að sporna við sjálfsvígstíðninni. Ég tel líklegast að meginorsök sjálfsvíga ungra karlmanna er að þeim gengur verr að tjá sína líðan. Byrgi inni vanlíðan. Sársauka sem síðan hefur sorglegar afleiðingar. Það er fátt sorglegra en að vita að ungt fólk sem á framtíðina fyrir sér, taki sitt eigið líf í blóma lífsins.
Hvers vegna er þetta vandamál svona stórt á Íslandi? Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að ungir karlmenn og í raun allar manneskjur, sjái enga aðra leið en að binda endi á eigið líf út af vanlíðan? Þessar spurningar taka á mig. Þetta er svo sorglegt.
Áður en kem með hugmyndir að svörum vil ég impra á eigin reynslu því ég var stálheppinn að enda ekki í hópi ungra karlmanna sem hafa framið sjálfsvíg. Eins og ég nefndi, hef ég litið til baka við að breytast úr unglingi í fullorðinn einstakling. Þá var annar tíðarandi, skoðanir og upplýsingastreymi ekki eins hratt og mikið og í dag. Ekkert internet. Engir snjallsímar. Það þótti fullkomið tabú að ræða svona mál.
Í grunnskóla man ég ekki eftir að vera spurður hvernig mér liði. Líðan barna í skólum var aukaatriði. Þú áttir að læra og kennarar beittu öllum ráðum til þess. Lygilega oft ofbeldi. Heima voru tilfinningar ekki ræddar. Ætla ekki að ræða nú en í barnæsku mótaðist í mér sjúkleg meðvirkni, höfnunarótti við að verða yfirgefinn og ofsakvíði- og hræðsla. Með þetta veganesti steig ég skrefin út í lífið. Lék hlutverk í gegnum unglingsárin og fyrstu fullorðinsár til að fela raunverulega líðan. Brotna sjálfsmynd, feimni, kvíða, ótta, lélegt sjálfstraust og um óttann við höfnun.
Ég var ófær að tjá mína líðan eða sýna aðrar tilfinningar en reiði og hroka! Það var mín varnargríma. Það er ekki eðlilegt að upplifa í fyrsta sinn vellíðan vegna áhrifa áfengis! Þar kom lausnin að mínum vandamálum sem varð til þess að ég lenti í stjórnlausu rugli í nokkur og sé nú að ég var stálheppinn að binda ekki enda á eigið líf. Eins oft og ég hugsaði um það. Blessunarlega náði ég ungur tökum á mínum alkóhólisma. Rösklega tvítugur var ég í meðferð og gleymi aldrei hvernig ráðgjafinn minn lét mig komast að því að ég kunni ekki að nefna eða skilgreina tilfinningar. Og að ég kynni ekki eðlileg samskipti. Þetta varð ég að læra og gerði það. Það var átak. Þessi ráðgjafi, sem ég hataði þá en er þakklátur fyrir í dag, fól mér það verkefni að rita allar tilfinningar sem ég fann yfir daginn. Ég gerði þetta með hundshaus og þarna byrjaði ég að þroskast. Um leið byggðit upp sjálfstraustið- og myndin. Þarna eignaðist ég líf. Menntaði mig og lifði ágætu lífi þar til sársauki fortíðarinnar braust fram sumarið 2013 og gerði mig fárveikan. Ég hafði ekkert unnið úr sársaukanum en lærði að lifa með honum. Eftir á sé ég að lífið var erfiðara en það þurfti að vera en ég, með mitt keppnisskap óð í gegnum allar hindranir.
Þegar ég veikist af krónískri áfallastreituröskun sumarið 2013 gerði ég mistök að leita mér ekki hjálpar. Af hverju? Hroki. Datt í gamla pyttinn! Karlmaðurinn ég ætla ekki að væla yfir þessu! 2 árum síðar kom þessi gamaldags karlmennska mér nær í gröfina! Ætla ekki dýpra í þá sögu nema að batagangan hefur kennt mér mikið um mig sem manneskju, tilfinningaveru og lífið. Ég ákvað að nýta tækifærið og vinna í mér og horfast í augu við mitt lífshlaup. Það er ég enn að gera og mun gera til síðasta dags. Að þessu leyti var brotlending lífsins blessun. Fékk tækifæri að staldra við í lífinu og þroska mig sem manneskju og sem tilfinningaveru. Hafði flogið í gegnum lífið án þess að stoppa.
Hvers vegna er þetta vandamál svona stórt á Íslandi í dag? Mér er brugðið að enn teljist tabú að karlmenn sýni tilfinningar. Er þetta líffræðilegur munur á konum og körlum? Ég trúi því ekki. Ég veit að skólastarfið frá leikskólastigi er þróaðra og börn læra miklu meira í dag um tjáningu en er ég var barn. Er það ekki að skila sér í gegnum allt skólakerfið? Tölulegar staðreyndir um sjálfsvígstíðni benda ekki til þess! Ég veit ekki hvers vegna en samkvæmt minni reynslu hef ég hugmynd að svari sem um leið svarar seinni spurningunni um hvað hægt sé að gera til að koma í veg fyrir sjálfsvíg? Tek fram að ég byggi þetta á reynslu minni og annarra, af upplýsingum og eigin hyggjuviti. Styðst ekki við neinar vísindarlegar samþykktar rannsóknir.
Heimili, uppalendur, skólar. Þetta eru stærstu áhrifavaldar á börn frá fæðingu til fullorðinsára. Uppalendur og þeir sem stýra skólastarfi frá leikskóla til loka framhaldsskóla ættu að spyrja sig: Hvernig getum við aukið hæfni einstaklinga til að finnast eðlilegt að tala um sína líðan og sýna tilfinningar? Ég spyr. Hafa þessir aðilar gert það? Er tekið á þessu í t.d. lífsleikni í grunnskólum? Lykilatriði að samstarf milli heimila og skóla sé sterkt og á milli ríki traust.
Börn búa við misjafnar aðstæður og eiga miserfitt að aðlagast skólastarfi. Ef svo er, og uppalendur jafnvel í erfiðleikum að sinna sínu hlutverki, á skólinn að grípa inn í. Greina þroskakafrávik, raskanir, þunglyndi, kvíða o.s.frv. Veita þeim börnum viðeigandi sérúrræði. Helst í samstarfi við uppalendur. Skólar þurfa því miður að berjast fyrir fjárveitingu til að sinna sérúrræðum sem er fáranlegt þar sem ekki er hægt að verja fjármunum betur en á þennan hátt. Bæta heilbrigði og hæfni barna sem síðar verða að fullorðnum einstaklingum í þjóðfélaginu. Hvað er verðmætara fyrir þjóðfélag?
Lagast ekki á einni nóttu en verður að byrja og hlutaðeigandi að horfast í augu við vandamálið án þess að kenna neinum um. Þetta er hægt. Það sem ég vil sjá hlutaðeigandi sammælist um er það sem mín reynsla og hyggjuvit hefur kennt mér. Ef börnum er ekki kennt að tjá sína líðan og sýna tilfinningar, þá gera þau það ekki! Einfalt! Hvað þá ef strákar fái að heyra að þeir eigi að vera harðir og ekkert væl! Skemmdarverk á tilfinningalífi þeirra!
Hvað getum við gert sem uppalendur? Til dæmis gefið okkur daglega tíma til að spyrja börnin hvernig dagurinn hafi gengið. Hvernig hefur þér liðið? Mynda traust á milli uppalenda og barna þannig að barnið finni það sé eðlilegt að segja frá öllu sem það upplifir yfir daginn. Gott eða vont. Þá verður uppalandinn að hlusta og grípa ekki fram í. Oft þurfa börn einfaldlega að tjá sig. Svo er það búið. Þetta tekur ekki langan tíma hvern dag. Er viss um að það sé miklu fljótara hægt að greina ef t.d. einelti byrjar. Svo ég tali nú ekki um betri líðan barna yfirhöfuð. Ekki flóknar lausnir en reynir á uppalendur. Sjálfsagt þurfa sumir þeirra að fá fræðslu. Það á að veita þessa fræðslu. Hér hef ég nefnt nokkur atriði sem koma fljótt upp í hugann en þau eru ábyggilega mikið fleiri og betri.
Ég var heppinn á sínum tíma og þakklátur fyrir það. Ég á þá ósk að sjálfsvígstíðni ungra karlmanna, og sjálfsvígstíðni yfirleitt, minnki sem allra fyrst. Það gerist ekki af sjálfu sér. Búið að prófa það!
Að lokum vil ég votta öllum aðstandendum ungs fólks, sem hafa tekið eigið líf, samúð mína. Guð blessi ykkur.