„Einn versti staður í lífinu er að vera svo undirgefinn og háður annarri manneskju að líðan og allt sem þú hugsar, gerir og segir er til [að] þóknast viðkomandi. Það er ekkert líf. Þú smá[m] saman tapar þínu sjálfstrausti, sjálfsmynd og, það sem má kalla, þínu sjálfi. Þú ert ekki lengur þú, heldur eins og viðkomandi vill að þú sért og/eða þú heldur að viðkomandi vilji,“ segir Einar Áskelsson í sínum nýjasta pistli:
Að tapa sínu sjálfi er hræðilegt. Dettur ekki önnur líking í hug en að vera í fangelsi hugans. Geta verið fleiri en ein ástæða fyrir að þú sért kominn í þessa stöðu. Uppeldislegt sem þú hefur aldrei tekist á við og jafnvel ekki vitað að þú þyrftir þess. Það hljómar alltaf jafn einkennilegt að ef þú ert alinn upp í umhverfi þar sem svona, köllum það ástand, ríkir, þá laðast þú að maka (og öfugt) þar sem sagan endurtekur sig. Ætla ekki að gerast vísindalegur og vitna í fræðilegar rannsóknir en ein skýringin virðist vera sú að þó þetta ástand sé óheilbrigt og vont, þá er það eina ástandið sem þú kannski þekkir og upplifir öryggi í. Ef hægt er að kalla það öryggi. Það sem er sorglegast við þetta er að ef ástandinu er ekki breytt og það myndast sama óheilbrigða andrúmsloftið og þú ólst upp við, þá smitast börnin á því sama og þú gerðir! Keðjan lengist þá þangað til einhver nær að brjóta hlekkina.
Líklegast er versta birtingarmyndin af óheilbrigðu andrúmslofti á heimili ef verið er að notfæra sér veikleika þína til að halda þér undirgefnum. Má vera að hinn aðilinn geri sér ekki grein fyrir því en það breytir engu. Þetta er hegðun af ásetningi og ýta [sic] undir að geta drottnað yfir manneskju. Það heitir ofbeldi. Mannvonska af vondri sort. Því miður allt of algengt og, eins og ég nefndi, birtist í ýmsum myndum.
Ég veit að þessi pistill er ekkert skemmtiefni og laus við fyndni. Ég veit líka að of margir þekkja þetta hvort sem þeir vilji viðurkenna eða ekki. Ég veit ennfremur að sumir átta sig ekki enn á, í hvaða stöðu þeir eru í. Það er sorglegt. Það sem er sorglegast að fólk í þessari stöðu getur ekki áttað sig. Það sem er alvarlegast er að þetta ástand heldur áfram endalaust. Nema ef einhver eða eitthvað verður til þess að þú opnir augu og huga. Það sem er mikilvægast er að ef þér tekst það, þá getur enginn breytt lífi þínu nema þú sjálfur. Skiptir engu hvort þú þú upplifir vandann lítinn eða mikinn. Þú átt alltaf val. Þér kannski finnst þú ekki eiga val sitjandi fastur í vanlíðan og angist. Jú þú átt víst val.
Hvað þýðir að eiga val? Þá þarftu að taka ákvörðun. Þú getur t.d. annars vegar afneitað og vilja ekki horfast í augu við stöðuna. Gera þ.a.l. ekkert og vonast til að þetta bara lagist. Þú getur líka ákveðið að gefast upp, viðurkenna vanmátt og biðja um hjálp. Það er erfitt en risastór áfangi út úr fangelsinu. Það er engin millileið ef þú ert að hugsa um það. Taktu ákvörðun.
Að velja fyrri möguleikann er að gera lífið enn ömurlega. Breytir engu hvernig þú reynir að réttlæta það. Að velja seinni möguleikann er búa til von um að losna úr viðjum fangelsis hugans. Eignast eigið sjálf og bæði bera ábyrgð og taka stjórn á þínu lífi. Þú getur já fengið hjálp en enginn getur breytt þér nema þú sjálfur.
Hvað þarftu að gera? Strax, sem er stóra skrefið, þarftu að slíta öll tengsl við manneskjuna sem þú varst háður. Öllum tengslum. Ef það eru börn í spilinu og þú neyðist til að vera í tengslum skaltu fá aðstoð við að stýra þeim samskiptum. Þá ertu kominn að öðru stóru skrefi sem er að setja viðkomandi mörk. Hleypir aldrei viðkomandi inn fyrir mörkin sem mun reyna það út í ystu æsar. Þangað til að viðkomandi upplifir að þetta er komið til að vera. Það kemur að því. Getur tekið tíma. Þú ert þá byrjaður að móta þitt eigið frelsi og getur einbeitt þér að því að byggja upp nýja sjálfsmynd og sjálfsvirðingu á eigin verðleikum. Ekki annarra. Þetta er allt hægt en er mikil vinna og tekur tíma. Lofa að þessi vinna er „hátíð“ miðað við líðanina í stöðunni sem þú varst í. Ef þú verður staðfastur þá stendur þú uppi sem sigurvegari í eigin lífi. Það er ekki sjálfgefið. En eftirsóknarvert.
Ég ætla ekki að útlista öll atriði sem hægt er að gera eða hvar hjálp er að finna. Ástæðan er að m.a. að það eru misjafnar orsakir á bak við hvers vegna fólk er komið í þessa stöðu. Það gætu og eru mismunandi aðstoð í boði eftir hvað hefur gengið á í lífi viðkomandi. Það sem er sameiginlegt er að vera, eins og ég nefndi, algjörlega undirgefin[n] og undir stjórn annarrar manneskju. Líka að vera staddur á heimili (eða vinnustað) þar sem ríkir óheilbrigt andrúmsloft. Einnig sameiginlegt að eiga þetta val um að breyta eða ekki. Fyrstu og mikilvægustu skrefin í upphafi eru eins. Viðurkenna vanmátt. Fá aðstoð. Slíta tengslum og setja mörk. Vil ekki fullyrða en ég held að fáum takist þetta án hjálpar. Þú ert sá síðasti sem áttar þig á stöðunni sökum afneitunnar. Margir í kringum þig búnir að því en ekkert hægt að gera fyrr en þú áttar þig.
Það er auðvelt að tala um en hægara sagt að framkvæma. Jú. En öll bataskref í lífinu byrja með fróðleik og umræðu sem vonandi leiðir til skilnings. Það kýs enginn að koma sér í þá stöðu sem ég hef lýst að ofan. Það hjálpar ekkert að benda þeim á, sem eru að reyna að brjótast úr angistinni, að þetta sé sjálfskapað. Segja bara...þér var nær! Þá ertu, að mínu mati, að halda því fram að fólk eigi ekki að gera svona mistök. Eða mistök yfirhöfuð? Hættum öllum fordómum. Sýnum skilning og hjálpum fólki. Ég eða þú höfum ekkert efni á eða þekkingu að dæma annað fólk.
Ég hef ekki stimplað það sem ég fjalla um, neinum hugtökum. Geri nú ráð fyrir að ýmsir séu búnir að gera það sjálfir. Eðlilega. Ég skrifa þetta svona ásetningi.
Af hverju er ég að fjalla um þetta? Rakst á slagorð þar sem stóð að ef þú ert að leita að einhverjum til að breyta lífi þínu, líttu þá í spegil. Það varð kveikjan.
Tala líka af reynslu. Mótaðist í æsku. Þekki þetta fangelsi hugans af eigin raun. Og að takast á við að komast út úr því. Er enn að því. Verð að því alla ævi.
En frelsið er yndislegt.