Unnur Valborg Hilmarsdóttir hefur lengi unnið við námskeiðahald og markþjálfun. Hún býr á Hvammstanga en þangað á hún rætur sínar að rekja. Að mati Unnar snýst gott hjónaband um að vera góður maki.
Unnur flutti aftur heim, eins og hún kallar það, árið 2013. Hún býr á Hvammstanga með eiginmanni sínum, Alfreð Alfreðssyni húsasmíðameistara. Saman eiga þau tvö börn, Guðna Þór fæddan 2011 og Birtu Ögn fædda 2013. Fyrir átti Unnur Myrkva Þór, fæddan 1997.
„Við njótum lífsins hér og teljum okkur búa við meiri lífsgæði en ef við byggjum í bænum. Ég sýsla við hitt og þetta. Ég hef lengi unnið við námskeiðahald og markþjálfun. Ég hef starfað að sveitarstjórnarmálum á kjörtímabilinu sem er að líða og er oddviti sveitarstjórnar. Við hjónin ásamt bróður mínum keyptum okkur gamalt hús í niðurníðslu hér á Hvammstanga og erum að gera upp íbúðir sem til að byrja með eru í útleigu til ferðamanna. Ég á líka og rek fyrirtækið Aðstoðarmaður sem aðstoðar fyrirtæki og frumkvöðla við ýmiskonar verkefni svo sem umsjón samfélagsmiðla, þýðingar, greinaskrif o.fl.“
Hvað hefur þú verið gift lengi?
„Við Alfreð giftum okkur 29. mars 2014. Við kynntumst í júní 2009 í löngu gufubaði (svetti) í Elliðaárdalnum. Raunar höfðum við hist á sama stað í janúar sama ár og þá ekki tekið eftir hvort öðru. Þegar við hittumst svo í júní fannst mér eins og ég hefði séð hann áður og spurði hvort hann hefði verið í svetti í janúar og hann leit á mig hissa og svaraði því játandi. Okkur fannst þetta mikil tilviljun að hittast aftur við sama tækifæri hálfu ári seinna og hann spurði: „Hvað er þetta eiginlega?“ Og ég svaraði um hæl: „Eru þetta ekki bara örlögin?“
Það má eiginlega segja að það hafi gefið tóninn fyrir það sem koma skyldi. Við fórum svo á stefnumót nokkrum dögum seinna. Þegar þetta var þá var Alfreð búsettur í Danmörku og fór til baka stuttu eftir fyrsta stefnumótið. Það varð úr að ég fór út til hans mjög fljótlega og var þar í mánuð. Mörgum fannst ég hálf glannaleg að rjúka strax út til hans eftir svo stutt kynni en ég hugsaði með mér að í versta falli færi ég bara heim aftur. Til að gera langa sögu stutta þá reyndist ekki þörf á því að fara fyrr heim því eftir þessa dvöl hjá honum varð ekki aftur snúið. Hann bjó úti fyrst um sinn eftir að við kynntumst en flutti heim haustið 2010 þegar ég var orðin ófrísk að Guðna Þór.“
Hvernig var brúðkaupið þitt?
„Brúðkaupið var alveg eins og við vildum hafa það. Látlaust og kom á óvart. Við höfum boðið nánustu fjölskyldu í afmæli barna okkar og svo óvenjulega vildi til að nær allir þeir sem við buðum komust norður. Þegar allir voru mættir í afmælið smöluðum við gestum upp í Kirkjuhvamm hér fyrir ofan Hvammstanga þar sem sr. Magnús Magnússon beið okkar í Kirkjuhvammskirkju. Hann gaf okkur saman í þessari dásamlega fallegu kirkju á sólríkum marsdegi. Bróðir minn, Skúli Húnn, spilaði á gítar og Hulda Signý kunningjakona okkar söng. Lögin sem þau fluttu voru Tvær stjörnur og Ég er kominn heim. Eftir athöfnina grilluðum við hamborgara í garðinum og áttum góða stund með okkar nánustu.“
Hvernig lýsir þú eiginmanni þínum?
„Alfreð er einstaklega þolinmóður sem vegur ákaflega vel upp á móti óþolinmæði minni. Hann er einstaklega góður mannþekkjari, fordómalaus og leyfir fólki alltaf að njóta vafans. Hann er traustur og mikill vinur vina sinna. Hann er sérstaklega ráðagóður og nær alltaf ef ég ber upp við hann eitthvað sem ég er að glíma við þá kemur hann auga á nýja fleti sem ég hafði ekki leitt hugann að. Hann er svakalega duglegur, en hefur um leið þann eiginleika að geta kúplað sig frá því sem bíður og slakað á sem er eitthvað sem ég er óðum að læra af honum. Það er í honum smá danskt „hygge“. Hann er frábær pabbi og hefur reynst elsta syni mínum einstaklega vel. Ég var einstaklega lánsöm að hitta hann.“
Hvernig vissir þú að hann var sá eini rétti?
„Ég bara vissi það. Einhleypar vinkonur hafa stundum spurt mig hvernig ég hafi vitað það og ég hef svarað því til að þú einfaldlega veist það þegar þú veist það. Það var akkúrat þannig. Hann náði strax mjög góðum tengslum við strákinn minn og það skipti mig eðlilega mjög miklu máli. Ég man að á einhverju af fyrstu stefnumótunum okkar hittum við vinafólk hans fyrir tilviljun. Þegar ég sá börnin þeirra stökkva í fangið á Alla og knúsa hann og sá hvað hann heilsaði vinum sínum hýlega þá vissi ég hvað hann var hlýr persónuleiki. Þegar ég sá svo fljótlega í okkar sambandi hvað hann var góður við mömmu sína sannfærðist ég endanlega um að hann væri góður maður. Ég hef þá kenningu að það sé mikið í þá menn spunnið sem eru góðir við mæður sínar.“
Hvað er það mikilvægasta í lífinu að þínu mati?
„Því er auðsvarað, börnin og fjölskyldan eru það allra mikilvægasta í lífinu. Það er fátt eins yndislegt og að sjá að börnunum manns gengur vel í því sem þau taka sér fyrir hendur og við höfum verið svo lánsöm að fá að upplifa það. Elsta barnið, Myrkvi Þór, er afskaplega vel heppnaður ungur maður sem er að gera frábæra hluti í sínu lífi, skynsamur og heilsteyptur. Yngri börnin, Guðni og Birta, eru hamingjusöm, frísk og glöð börn. Tilgangurinn í lífinu hverfist um börnin. Að vera til staðar fyrir börnin sín, gefa þeim tíma, veita þeim stuðning, hvetja þau áfram. Vera þeim góð fyrirmynd með því að lifa heilbrigðu og heiðarlegu lífi. Skapa þeim það umhverfi sem þau þarfnast svo þau fái tækifæri til að nýta styrkleika sína til að vaxa og dafna.“
Hver er tilgangurinn með hjónabandi að þínu mati?
„Ég hef í gegnum tíðina aldrei hugsað mikið um hjónabandið og var ekki ein af þeim stelpum sem létu sig dreyma um brúðkaupsdaginn. Það sem kom mér hins vegar á óvart þegar ég fann minn sálufélaga og lífsförunaut var hvað það var mér mikilvægt að innsigla sambandið og staðfesta kærleikann með því að ganga í hjónaband. Við hjónin lítum á það sem blessun að hafa verið leidd saman og því eðlilegt fyrir okkur að blessa samband okkar með því að ganga í hjónaband. Við gerðum það á okkar forsendum og með þeim hætti sem okkur hugnaðist. Það finnst mér afar mikilvægt – að fólk hafi umgjörðina um athöfnina og brúðkaupið sjálft nákvæmlega eins og það vill hafa hana, kjósi það á annað borð að gifta sig. Ekki allir kjósa að stíga það skref og það ber líka að bera virðingu fyrir því.“
Hvernig gerir maður gott hjónaband betra?
„Það er stundum talað um að það sé mikil vinna að viðhalda neistanum í hjónabandinu. Ég upplifi það ekki þannig. Við hjónin eigum gott og traust samand, við erum góðir vinir en við erum líka alltaf kærustupar og pössum upp á að gleyma því ekki. Mér finnst við hafa náð góðu jafnvægi í því að vera einstaklingar um leið og við erum par. Gamla máltækið um að leyfa hverjum fugli að fljúga eins og hann er fiðraður á hér vel við. Við erum eins og við erum og það er ekki hlutverk maka að breyta hinum aðilanum eða ala hinn aðilann upp. Báðir aðilar verða að fá að njóta sín eins og þeir eru. Ég gleymi þessu stundum og hrekk í uppalanda-hlutverkið. Þá er Alli fljótur að benda mér á það. Hjónabandið snýst um samvinnu en ekki stjórnsemi. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að tala saman og ennþá mikilvægara að hlusta.“
Skipar æðri máttur sess í þínu hjónabandi?
„Tvímælalaust. Við hjónin erum sannfærð um það að æðri máttur hafi leitt okkur saman. Við grínumst stundum með það að fyrst við náðum þessu ekki í fyrra svettinu þá hafi hann hugsað með sér: „þetta eru nú meiri sauðirnir, best að gefa þeim annað tækifæri“ og þess vegna hittumst við aftur á sama stað, hálfu ári seinna. Þá náðum við þessu. Við erum sannfærð um að æðri máttur er að störfum í öllu lífi okkar hjóna. Við hittumst og hlutirnir gengu eins og smurt þó við værum búsett á þeim tíma sitt í hvoru landinu. Við eignuðumst tvö mjög velkomin börn með stuttu millibili. Við fluttum norður og höfum því tækifæri til að verja miklum tíma með börnunum. Störf okkar beggja eru þannig að við getum verið með börnunum að mestu í skólafríum og á sumrin og það er alltaf einhver heima til að taka á móti þeim eftir skóla. Við fáum tækifæri til að ferðast og njóta lífsins. Hlutirnir raðast upp okkur í hag, við lítum á það sem mikla blessun og fyrir það erum við afskaplega þakklát.“
Hvernig markmið eruð þið fjölskyldan með?
„Markmið okkar er fyrst og síðast að „liffa og njódda“. Við höfum valið okkur nokkuð nægjusaman lífsstíl frá degi til dags en leyfum okkur þeim mun meira þegar kemur að ferðalögum og því sem við köllum að búa til minningar. Ég grínast stundum með það að mér finnist ég hálf manneskja ef það er ekki amk eitt sett af farseðlum fyrir fjölskylduna í skúffunni. Það skemmtilegasta sem við gerum er að ferðast og við gerum eins mikið af því og við mögulega getum. Okkur finnst skemmtilegast að fara þegar allir krakkarnir eru með en förum líka tvö saman í styttri ferðir. Við höfum t.d. farið bara tvö saman til Parísar með vinafólki á U2 tónleika og í kærustuparaferð til Rómar. Þær ferðir mega ekki vera of langar því þá byrjum við að tala um hvað börnin hefðu gaman af því að sjá þetta eða hitt. Þá er ferðin orðin of löng. Fyrir 4 árum keyptum við okkur gamalt sumarhús í Hvítársíðunni og það leikur orðið stórt hlutverk í fjölskyldulífinu og þar eigum við margar góðar stundir. Húsið er að mestu í upprunalegri mynd, þar er ekki rafmagn og það er kynt með gamalli Sóló eldavél. Það kallar því á öðruvísi samverustundir en við annars eigum dags daglega. Við köllum það „slow“ sumarhúsið okkar. Það tekur langan tíma að hita upp húsið, við erum með viðarkyntan heitan pott sem tekur heilan dag að hita, það tekur lengri tíma að elda matinn, það tekur allt einhvernveginn lengri tíma en alla jafna og er frábært mótvægi við ysinn og þysinn sem oft umlykur hversdaginn. Við leggjum mikið upp úr því að fara reglulega þangað og þá aðallega yfir sumartímann. Þar höfum við búið til minningafjársjóð og stefnum á að bæta í þá fjársjóðskistu á komandi árum.“
Hvaða breytingar komu með börnunum ykkar?
„Alfreð lýsir því þannig að hann hafi fyrst farið að lifa til fulls þegar börnin komu í heiminn. Hann var búinn að bíða lengi eftir því að eignast börn og ég sjálf hálfpartinn búin að gefa upp á bátinn að ég hefði tækifæri til að eignast fleiri, svo þau voru mjög velkomin. Eftir fertugt þá er maður orðinn þolinmóðari en rúmlega tvítugur þegar ég átti fyrsta barnið mitt. Eftir fertugt þá er maður líka ekki að missa af neinu og börnin njóta þess klárlega. Við höfum ekki mikla þörf fyrir að fara út að skemmta okkur og okkar mesta skemmtun er að gera hluti með börnunum okkar og allra best er það þegar við höfum þau öll þrjú með okkur. Við viljum helst taka börnin með okkur hvert sem við förum og við höfum þvælst með þau um allt. Þegar Guðni Þór var ársgamall fórum við t.d. með hann og eldri strákinn í bakpokaferðalag um grísku eyjarnar sem tókst frábærlega. Við fórum með Guðna í fyrstu útileguna þegar hann var 3ja mánaða og Birta var á svipuðum aldri þegar hún fór í sína fyrstu. Þau byrjuðu bæði mjög snemma á skíðum og eru núna orðin mjög flink á svigskíðum og eru að byrja á gönguskíðum. Þegar ég var ein með elsta strákinn minn gerðum við mikið af því að fara í ferðalög, útilegur, gönguferðir, tónleika og hvað annað sem okkur datt í hug. Svo það má segja að við höfum ekki gert miklar breytingar á okkar lífsstíl þegar börnin komu heldur fléttað þau inn í okkar lífsstíl.“
Þegar út af ber eða áskoranir koma upp, hvert er best að leita?
„Eðlilega þá hafa skipst á skin og skúrir í sambandi okkar hjóna á þessum tæpu 9 árum sem við höfum verið saman. Þó hafa skúrirnir verið afar fáir og okkur auðnast að vinna okkur saman í gegnum þá. Alla jafna þá finnst mér virka best að byrja á því að leita inn á við þegar eitthvað kemur upp og skoða hvaða hlut ég á í stöðunni sem upp er komin. Stundum getur það tekið smá tíma að átta sig á því og það er ekki alltaf auðvelt að horfast í augu við það að maður sjálfur eigi mögulega þátt í vandanum. Sömuleiðis getur verið áskorun að biðjast þá afsökunar. Við höfum bæði borið gæfu til þess og eigum mjög kærleiksríkt samband sem byggist á kærleik, virðingu og vináttu.“
Eitthvað að lokum?
„Áður en ég kynnist Alla hafði ég búið ein í langan tíma. Eðlilega komu tímabil þar sem mig langaði til að eiga maka til að deila lífinu með en einhvernveginn gekk það aldrei upp. Eins og svo margir sem eru í þeirri stöðu var fókusinn á að leita að rétta aðilanum. Það var ekki fyrr en ég las blaðaviðtal við landsþekktan skemmtikraft sem ég áttaði mig á því að makaleitin snýst ekki um að finna rétta aðilann heldur það að VERA rétti aðilinn. Ég hugsa oft um þessi orð og hef oft endurtekið þau við vini mína sem ekki eiga maka. Það sama á við um hjónabandið. Gott hjónaband snýst ekki um að eiga góðan maka heldur það að VERA góður maki. Ef báðir aðilar hafa það að leiðarljósi þá eru meiri líkur á hamingjuríku hjónabandi.“