Greinin https://www.mbl.is/frettir/innlent/2018/07/08/kvidi_er_tilfinning_ekki_sjukdomur/ eftir Steinunni Örnu Sigurjónsdóttur sálfræðing, vakti mikla athygli mér.
Titillinn vakti hjá mér áhuga en höfundur greinarinnar útksýrir mál sitt á greinagóðan hátt. Á batagöngu minni hef ég reynt að fylgjast með þeim sem skrifa um áfallastreituröskun, kvíða, þunglyndi o.s.frv. Oftar en ekki hef ég orðið fyrir miklum vonbrigðum, sér í lagi með það sem t.d. fagaðilar bjóða upp á. Efni frá þeim virkar stundum á mig sem dulbúin auglýsing fyrir viðkomandi aðila eða fyrirtæki sem hann vinnur fyrir. Því vil ég hrósa Steinunni fyrir að benda á að fagaðilar þurfa einnig að líta í eigin barm, þar sem þeir hafa greint fólk vitlaust. Það vissi ég eftir samskipti við fjölmarga aðila.
Kvíði er tilfinning sem við öll finnum fyrir. Flestir læra að stjórna kvíðanum sem hangir oft saman við árangur sem fólk nær í lífinu. Aukið sjálfstraust og mat eykst og dregur úr kvíðanum. Blessunarlega þekkja flestir tilfinninguna kvíða og ótta á þennan hátt.
Eins og Steinunn fjallar um í greininni getur kvíði orðið vandamál hjá fólki. Það er það sem Steinunn kallar klínískan kvíða til aðgreiningar frá eðilegum kvíða.
Þá vaknar hjá mér spurning. Hvers vegna fær sumt fólk klínískan kvíða en annað ekki? Eins og alltaf get ég ekki svarað nema vísa í mína reynslu. Ég gæti vitnað í fjölda fólks eða akademískar fræðigreinar. Það segir mér og fólki almennt lítið. Mín reynsla er að fólk samsvarar sig best við að lesa reynslu annarra. Ekki við að lesa akademískar skilgreiningar með fullri virðingu fyrir þeim.
Ég fæddist heilbrigður. Fyrstu árin var tilfinningalífið mitt að þroskast á eðlilegan hátt. Fæðist enda einhver með klínískan kvíða? Ég spyr því ég vil ekki fullyrða um það sem ég þekki ekki. En leyfi mér að efast. Barn mótast af umhverfi sínu og uppalendum. Hegðun, atferli, aðbúnaði og aðstæðum sem börnum er boðið upp á. Flestir alast upp við ást og umhyggju sem mótar tilfinningarlíf þeirra. Aðrir eru ekki eins heppnir.
Ég er einn af mörgum sem alast fyrstu árin upp við eðlilega ást og umhyggju eins og gengur og gerist. Læri mun á réttu og röngu og sýni eðlileg viðbrögð við umhverfinu. Svo breyttist allt. Ég man ekki nákvæmlega hvenær. Sem barn breyttist ég úr manneskju með kvíða yfir að verða með klínískan kvíða og ótta. Ótti er tilfinning sem fyrir mér er eins og tvíburi kvíðans.
Hvað gerðist? Ástæðan er ekki líffræðileg heldur hegðun fólks ásamt andrúmslofti og aðstæðum á heimilinu. Í stað öryggis er komið óöryggi. Þetta er einfalda svarið. Ég verð hræddur og fer að læra, illu heilli, að upplifa klínískan kvíða og ótta. Barn er með sterka aðlögunarhæfileika. Ég bjó mér til varnir til að bregðast við breyttum aðstæðum. Fer að leika hlutverk. Þetta er rótin að meðvirkninni sem og höfnunaróttanum sem ég þjáðist af. Í stað tilhlökkunar geng ég um með kvíða og ótta. Það urðu mínar eðlilegu tilfinningar sem er ekki eðlilegt!
Á heimilinu fór andrúmsloftið að breytast vegna veikinda heimilismeðlima og þeirra sem stóð mér næst. Annar aðili á heimilinu fékk mig til að verða ofsakvíðinn- og hræddan. Í nokkur ár aðlagast ég þessu ástandi og reyni eins og börn gera að þrauka. Mitt heimili var á yfirborðinu slétt og fellt. Það gat engum dottið í hug að þar væru vandamál. Ekki heldur hjá fólki sem kom í heimsókn og gistu. Lúmskur andskoti. Orsökin fyrir breyttri hegðun þeirra sem áttu að veita mér ást, umhyggju og öryggi var alkóhólismi og hugsanlega andlegir sjúkdómar. Ég el illu heilli með mér, eins og ég nefndi, fyrir utan klínískan kvíða og ótta, sjúklega meðvirkni og höfnunarótta. Í dag veit ég að höfnunaróttinn var ofsahræðsla að verða einn og yfirgefinn ef ég missti stoð mína og styttu í lífinu. Ég tók því óumbeðinn að mér það hlutverk að passa upp á viðkomandi á meðan drykkja stóð yfir. Daga og nætur. 10 ára var ég í 24/7 vinnu í 3 vikur í sólarlandaferð í þessu hlutverki. Það var nóg að gera. Ég hékk á barnum og fór aldrei að sofa fyrr e komin væri ró yfir viðkomandi. Þessu vandist ég í nokkur ár. Gagnvart hinum aðilanum get ég lítið tjáð mig um í bili. Bæði of sárt og minnið mitt búið að blokkera minningar að mestum hluta.
Vegna aðstæðna á heimilinu ól ég með með mér klínískan ofsakvíða- og ótta, meðvirkni og höfnunarótta. Að sjálfsögðu drap þetta sjálfstraustið- og matið mitt. Ég varð logandi hræddur að verða tekinn t.d. fyrir í skólanum af ótta við að gera mistök. Ég fór með allt mitt tilfinningalíf inn í skel og faldi það líkt og mannsmorð. Byrgði inni óbærilegan sársauka úr andlegu- og líkamlegu ofbeldi. Önnur ráð voru ekki í boði. Ég mátti heldur ekki segja frá.
Hvernig þraukaði ég? Ég hef nefnt hlutverkaleikina. Ég setti á mig grímur heima við. Út á við voru grímurnar vörn. Ég varð ofurviðkvæmur fyrir minnstu stríðni og forðaðist athygli. Ég var blessunarlega ekki lagður í einelti og ástæðan kannski hinn þátturinn sem ég tel að hafi bjargað barnæskunni. Sem var Íþróttir. Ég var á kafi í þeim og gríðarlega efnilegur. Í íþróttum fékk Þar ég útrás og þar gat ég gleymt mér. Inn á fótboltavellinum varð ég önnur persóna. Því er ekki skrýtið að minn eini draumur í lífinu var að verða atvinnumaður í fótbolta. Ég fór snemma að vekja athygli og þráði viðurkenninguna sem mig skorti heima fyrir. Ég veit að ég hefði getað náð langt á þessu sviði. Ég var kominn 16 ára í efstu deildarlið og unglingalandslið í fótbolta. Ég var meðal annars valinn í unglingalandslið í körfubolta. éG var stór eftir aldri. Það er minnistæður leikurinn sem ég spilaði með George Best og KA liðinu á móti Manchester United á Akureyravelli. Það var hápunkturinn á ferlinum.
Sem unglingur umturnaðist ég. Blossaði í mér gríðarleg reiði sem ég varð að fá útrás fyrir. Ég hef sagt þessa sögu áður og vil ekki endurtaka hana hér, en knattspyrnuferill minn og þ.a.l. minn eini draumur, fór í vaskinn. Ég leiddist út í óreglu. Varð alkóhólisti við fyrsta sopa. Ég keyrði mig í kaf á örfáum árum. Blessunarlega náði ég mér upp úr því á milli tvítugs og þrítugs og eignaðist líf.
Líf sem mér fannst ótrúlega gott miðað við sem áður var. Þannig var mín saga til ársins 2013. Þegar sársauki barnæskunnar bankaði upp á og braust út. Ég vissi ekki hvað var að gerast en þarna veikist ég af röskun sem heitir á ensku „Complex Post Traumatic Stress Disorder“. Má kalla margþætta eða flókna áfallastreituröskun. Mín helstu einkenni voru ofsakvíða- og panikköst. Í hverju kasti fór ég að endurupplifa sársauka ofbeldis úr æsku. Ég gekk í gegnum það aftur.
Þessi röskun sem ég barðist á móti í 2 ár eyðilagði mitt ágæta líf og mína heilsu. Af hörku við að standa mig brann ég út og lá að lokum ósjálfbjarga í íbúð orkulaus, taugakerfið í rúst og varnarkerfið horfið. Það blés í gegnum mig. Mér leið eins og ég væri ekkert. Minnsta óvænta hljóð fékk mig til að fá enn eitt viðbjóðslega ofsakvíða- og panikkastið.
Ég lifði af og hef frá haustinu árið 2015 unnið eins og skepna við að ná bata. Það er ekki langhlaup heldur maraþon. Ég hef farið í gegnum margt mótlætið á batagöngunni. Oft kominn að því að gefast upp en alltaf hef ég fundið leið til að standa upp og halda áfram. Ég ætla mér að eignast gott líf.
Kvíði er tilfinning en ekki sjúkdómur. Ég er sammála höfundi fyrrnefndrar greinar. Minn kvíði varð klínískur og leiddi til röskunar sem ég er að fá hjálp við. Vonandi tekst mér að læra að stjórna kvíðanum sem eðlilegri tilfinningu. Það er líka markmiðið.