Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafi, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér spyr kona sem var alin upp við erfiðar aðstæður og ofbeldi í æsku hvernig hún geti komist út úr gömlu fjölskyldumynstri, stjórnsemi og því að beita þá sem henni þykir vænt um andlegu ofbeldi.
„Ég er alin upp við mjög erfiðar aðstæður og varð fyrir margs konar ofbeldi í æsku. Ég brást við með mótþróa þrjósku röskun og uppreisn. Ég á mjög erfitt með taka leiðsögn og er svo þrjósk að ég get ekki hlýtt fyrirmælum. Ég er afburðastjórnsöm og frek. Ég er búin að standa sjálfa mig að því að beita móður mína og maka minn andlegu ofbeldi. Mér líður svo illa út af því að ég vil alls ekki vera eins og pabbi minn. Hann er stjórnsamur kúgari sem misnotar sér veikleika annarra og kemst upp með það. Hann hefur alltaf rétt fyrir sér að eigin mati. Ég er búin að panta viðtal í fjölskylduráðgjöf og athuga hvenær næsta fjölskyldumeðferð er hjá SÁÁ. Ég hef einnig leitað mér aðstoðar hjá Bjarkarhlíð. Þar að auki hef ég reynt að lesa mér til um meðvirkni og leita leiða til þess að komast út úr þessu hegðunarmynstri. Ég hef heyrt að hægt sé að leita til 12 spora samtaka. Getur þú gefið mér einhver góð ráð til viðbótar?“
Sæl mín kæra og takk fyrir senda á mig spurninguna.
Þegar ég les bréfið þitt sé ég að spurning þín að mínu mati snýst um fúsleika. Þú nefnir góðar leiðir sem þú ert að fara í til að vinna úr æskunni. 12 spora samtökin sem aðstoða mann í að takast á við stjórnsemi (sem er eitt algengasta form meðvirkni) eru Al-Anon.
Við getum ástundað alls konar aðferðir, lesið okkur til og eytt mörgum klukkustundum á dag í að vinna í okkur en ef við erum ekki til í að sleppa og treysta og að hætta að ástunda það sem ekki virkar, þá erum við ekki að verja tímanum okkar rétt. Þrjóska, það að vita best sjálf og mótþrói eru andlegur hernaður á móti bata í aðstæðunum sem þú ert í núna.
Það er fallegt að þú sjáir það sem þú ert að taka með þér úr æskunni. Eins finnst mér þú meðvituð og góð að sjá mynstrið í kringum þig. Að mínu mati gerum við öll ýmislegt dag hvern sem flokka má sem andlegt ofbeldi. Bara það að vaska upp með hávaða til að láta aðra vita að við erum fúl, er andlegt ofbeldi að mínu mati. Við eigum bara okkur sjálf, annað fólk er gjafir í lífi okkar. Að setja heilbrigð mörk, fara úr skaðlegum aðstæðum og setja ást í öll sambönd okkar hér á jörðinni er tilgangurinn að mínu mati. Við eigum ekki maka okkar, börn eða foreldra. Þau eru hér til að þroska okkur og við þurfum að læra á hverjum degi að vera heiðarleg við okkur og fara vel með okkur sjálf, þannig getum við verið kærleiksrík, góð og heiðarleg við annað fólk.
Að þú viljir hætta að ástunda það sem þú nefnir sem andlegt ofbeldi gagnvart þeim sem þú elskar mest er frábært. En þá þarftu að vera tilbúin að sleppa og treysta. Vanalega þurfum við að vera á það sem heitir „botni“ til að prófa eitthvað nýtt. Veruleikinn þarf að vera það óbærilegur að við höfum engu að tapa að gera og hugsa hlutina upp á nýtt. Þetta er raunverulegur fúsleiki. Hausinn á okkur, sem að mörgu leyti er búinn að skapa vandann, er sennilega ekki að fara að leysa þetta mál einn. Til þess þurfum við leiðbeinanda, við fáum slíkan í 12 sporakerfinu eða í formi ráðgjafa.
Þar sem þú ert dugleg að lesa mæli ég með Marianne Williamson. Hún talar svo fallega um fúsleika, erfiða æsku, botn og upprisu. Hvernig fólk sem hefur upplifað margt um ævina, heldur stundum áfram að ástunda ofbeldið gagnvart sjálfum sér í framtíðinni. Hún segir á einum stað í bókinni Return to Love: „Sama hvað ég upplifði í æsku, þá var ég á þessum tíma að koma enn þá verr fram við sjálfa mig. Ég sagði hluti sem lét fólk hafna mér. Ég dæmdi mig harðar en ég hafði nokkurn tíman verið dæmd af öðrum. Ég drakk óhóflega og var komin á þann stað að hæfileikar mínir og tengsl við aðra voru ekki að fara að redda mér út úr aðstæðunum. Ég þurfti að verða fús til að breyta algjörlega hvernig ég hugsaði um veröldina og mig sjálfa. Ég þurfti að finna kraftaverk!“
Marianne Williamson þekkir flest 12 spora hugmyndakerfi eins og fingur sína. Hún hefur farið víða sem sérfræðingur og segir að kraftaverkin gerast inn í okkur en ekki úti í veröldinni. Enda sé veröldin bara það sem við túlkum að hún sé.
Skoðaðu Marianne Williamson og skoðaðu hvernig þú getur orðið fús til að taka við kraftaverkum. Skoðaðu hvort þú getir treyst öðrum og tekið inn kærleikann. Fyrirgefið þér og öðrum. Tekið ábyrgð á þér í dag og stigið inn í að verða besta útgáfan af þér. Þar sem þú ferð inn í hvern dag í auðmýkt og kærleika. Ef þú ferð sömu leið og hún þá muntu finna kennarann búa hið innra með þér. Hún ástundar „A Course in Miracles“ daglega. Ég mæli með því fyrir alla sem hafa áhuga á að breytast. Þú getur byrjað á að hlusta á vikulega fyrirlestra með henni sem þú finnur á heimasíðu hennar. Eins eru til hljóðbækur og vinnubækur um efnið.
Ég held að það sé verið að kalla þig í verkefnið að verða besta útgáfan af þér.
Til hamingju með það.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós póst HÉR.