Vont að kunna ekki að skammast sín

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

„„Það er betra að kunna að skammast sín en að kunna það ekki!“ Þessa setningu heyrði ég doktor í Háskóla Íslands segja á fundi sem ég sat fyrir nokkru síðan. Það skal tekið fram að orðunum var ekki beint til mín en það er óhætt að segja að hún hafi haft mikið til síns máls. Skömm er tilfinning sem er eðlileg og reyndar mjög mikilvæg. Hún lætur okkur vita þegar við höfum gert eitthvað sem við ættum ekki að gera og birtist almennt með seyðing ofarlega í brjóstkassanum og upp andlitið sem roðnar við hormónabreytingar sem eiga sér stað þegar við upplifum skömm,“ segir Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu í sínum nýjasta pistli: 

Skömm kemur yfir okkur þegar aðrir sjá til okkar gera eitthvað sem er skammarlegt eða þegar við vitum að aðrir vita af einhverju sem við höfum gert, til dæmis þegar það kemur fram í fréttum eða öðru slíku. Það má því segja að skömm sé „opinber“ tilfinning. Sektarkennd eða samviskubit er önnur tilfinning sem gjarnan er ruglað saman við skömm. Sektarkennd er tilfinning sem birtist þegar við höfum gert eitthvað sem fer gegn gildunum sem við lifum eftir eða gegn okkar betri samvisku eins og stundum er sagt. Sektarkennd þarf ekki að hafa með það að gera að aðrir viti af því sem við gerum rangt, hún er ákveðinn leiðarvísir innra með okkur og hjálpar okkur eins og skömmin, að skoða hvort við erum á réttri leið í lífinu, hvort við erum að breyta rétt í samræmi við okkar eigin samvisku.

Tökum dæmi um skömm og sektarkennd:

Ímyndum okkur að við værum að versla í búð og borguðum með peningaseðlum þegar við komum á kassann eins og það er kallað. Við tökum eftir því að afgreiðslumaðurinn lætur okkur fá of mikið til baka, 5000 þúsund króna seðil sem við vitum að er ofaukið. Þá mætti segja að gott og heiðarlegt væri að láta vita af mistökunum og afhenda þann hluta sem var ofgreiddur. Þannig værum við að segja að við hefðum heiðarleika sem gildi. Við værum líka að segja að við vildum ekki „selja“ samvisku okkar fyrir fimm þúsund kallinn sem við fengum ofgreiddan. En hvað ef við gerðum það ekki, hugsum til dæmis með okkur „það tók enginn eftir þessu“ og létum freistast, stingum peningnum í vasann og látum eins og ekkert sé? Þá væri eðlilegt að við fengjum sektarkennd ef gildin okkar innihalda það að vera heiðarleg. Ef gildin okkar innihalda ekki að vera heilarleg, þá værum við líklega nokkuð ánægð að hafa grætt 5000 krónur á réttmætan máta að okkar mati, bara ánægð að hafa komist upp með þetta. Ef í ofanálag bættist nú við að afgreiðslumaðurinn staldri við og segi allt í einu: „Fyrirgefðu, getur nokkuð verið að ég hafi látið þig hafa of mikið til baka?“, þá reynir enn meira á innrætið, hvaða gildi samviskan byggir á. Einstaklingur sem býr ekki yfir góðum gildum gæti blákalt svarað: „Nei, ég fékk ekki of mikið til baka“. Þar með væri hann ekki bara óheiðarlegur heldur beinlínis að ljúga. Að ljúga myndi ýta verulega á sektarkennd þeirra sem væru með sannsögli sem gildi í lífi sínu en snertir ekkert sérstaklega við þeim sem er sama um þann ágæta kost. Ef við tökum þessa sögu lengra og segjum nú að akkúrat þegar við værum að ganga út úr versluninni þá kæmi yfirmaður verslunarinnar og segði „Heyrðu, við erum með upptöku af því að þú tókst við 5000 krónum og stakkst þeim í vasann áðan og samkvæmt afgreiðslumanninum þá sagðist þú ekki hafa fengið of mikið til baka“. Þá væri verknaðurinn orðinn „opinber“ og ef viðkomandi aðili kynni að skammast sín, þá kæmi einmitt þessi óþægilega tilfinning upp efri hluta líkamans og andlitið yrði kafrautt. Hann myndi átta sig á því að hann hefði gert rangt þó ekki væri nema miðað við almennar siðareglur í samfélaginu, jafnvel þótt honum þætti sjálfum í lagi að vera óheiðarlegur, að stela og ljúga. Ef hann væri enn forhertari og ótengdari slíkum tilfinningum, þá myndi hann jafnvel enn halda því fram að hann hafi ekki tekið peninginn og brugðist reiður við þessum dónaskap að það væri verið að bera þetta upp á hann. Hann gæti meira að segja gengið svo langt að segja að afgreiðslumaðurinn sé bara vitleysingur, yfirmaðurinn vesalingur og að það sé með öllu ólíðandi að verið sé að fylgjast með fólki í versluninni með upptökum. Ef hann gengi enn lengra með hrokann og yfirlætið þá gæti hann bætt við hótun um að gera eitthvað í málinu, jafnvel farið að tala um persónuverndarlög og allt hvað eina. Tala nú ekki um ef hann væri flinkur að tala og verja sig við erfiðar aðstæður.

Það er ljóst að við erum misjöfn hvað þessa þætti varðar, sumir upplifa skömm yfir hlutum sem aðrir gera ekki og sumir eru þjakaðir af sektarkennd yfir einhverju sem aðrir væru ekki að kippa sér upp við. Þess vegna erum við gjarnan afar hneyksluð á því sem aðrir gera því það samræmist ekki því sem við teljum að við myndum sjálf gera. Það eru þó ákveðin grunngildi sem flestir geta verið sammála um að hafa staðist tímans tönn, nokkurs konar lögmál sem einfaldlega virka. Ég ætla að ganga svo langt að segja að langflestir sem líta á dæmið hér að ofan myndu segja að þessi hegðun sé ekki góð, hún sé ekki heiðarleg, að hún sé hrokafull, að viðkomandi væri illa treystandi og væri jafnvel varasamur einstaklingur. Það mætti spyrja sig hvort þessi einstaklingur væri til dæmis hæfur til að starfa einhverstaðar þar sem hann ber ábyrgð á að vinna að bættum kjörum og lífsgæðum heillar þjóðar. Hann hefði mögulega gott af því að staldra við og fá aðstoð við að bæta siðferði sitt og vinna með heiðarleika og það að sýna sjálfum sér og öðrum virðingu. Ef viðkomandi væri með góð innri gildi og hefði einhvers staðar í ferlinu stoppað og hugleitt hvað væri rétt að gera í stöðunni, þá hefði málið aldrei gengið svona langt. Hann hefði strax getað verið heiðarlegur og gert veröldina fallegri með því einu að láta afgreiðslumanninn vita af mistökunum og skilað peningnum. Þannig hefði hann sýnt gott fordæmi og hvatt aðra til að gera það sama. Hann hefði líka getað stoppað þegar hann var spurður hvort hann hefði nokkuð fengið of mikið til baka og bætt stöðuna með því að athuga hvort svo væri og í framhaldinu skilað peningnum. Það væri strax skárra og hann færi hugsanlega út með svolitla skömm í farteskinu. Ef hann hefði fallið á tveim fyrstu prófunum hefði hann alla vega getað sleppt því að ljúga á lokametrunum þegar upp kæmist um málið, horfst í augu við staðreyndir, beðist afsökunar og sýnt að hann iðraðist þess að hafa gert þessi mistök. Það hefði verið flott skref úr því sem komið var og flestir tilbúnir að sýna því skilning þegar við viðurkennum að hafa gert mistök og sýnum iðrun.

Nýlegt dæmi sem er á allra vörum í samfélaginu þar sem nokkrir einstaklingar sátu að sumbli og létu ýmis orð falla um annað fólk, er gott dæmi um það þegar eitthvað virðist vanta upp á fyrrgreinda þætti. Hvort sem það er að hafa góð gildi að leiðarljósi, að upplifa sektarkennd, að kunna að skammast sín, að segja satt frá, að viðurkenna mistök og að iðrast þá er ljóst að velta mætti fyrir sér hvort sum eða öll þessi atriði eigi við. Allir gera mistök og líklega hafa allir einhvern tímann tekið þátt í að tala um aðra án þess að gera það á jákvæðan og uppbyggilegan máta. Það eru engu að síður ekki margir sem ég þekki sem nota þau orð sem þarna féllu og hitti ég þó allskonar einstaklinga í allskonar aðstæðum. Ef við látum óforsvaranlegt orðaval liggja á milli hluta þá er engu að síður áhugavert að sjá hvernig sumir þessara einstaklinga hafa tekist á við stöðuna í framhaldinu. Í sumum tilvikum virðist vera sem þeir kunni ekki að skammast sín... það er ekki gott.

Án þess að vera menntaður í stjórnmálum þá hef ég setið stjórnmálaáfanga á háskólastigi. Það var fyrir margar sakir áhugavert og sérstaklega man ég eftir talsverðri umræðu um mikilvægi þess að stjórnmálamenn og yfirvöld almennt, fylgi skráðum lögum og reglum þannig að almenningur í landinu geri það líka. Ef æðstu stjórnendur í samfélaginu gera það ekki er nefnilega hættara við því almenningur líti svo á að þeir þurfi þess ekki heldur, að þeir hugsi með sér „Hmm.. ef þetta fólk er svona óheiðarlegt, af hverju ætti ég að vera að rembast við að vera heiðarlegur?“.

Í allra versta falli er slíkt ástand talið geta leitt til þess sem kallast „siðrof“ þar sem fólki fer einmitt að vera sama um lög, reglur, siðferði, eignarétt og fleira í þeim dúr. Það er alvarlegt því það mætti segja að þetta sé límið í samfélaginu, að við sýnum hvort öðru og eignarétti hvors annars virðingu. Þess vegna er það enn ríkari ábyrgð hjá þeim sem landið leiða að ganga á undan með góðu fordæmi. Og hvernig á að gera það? Það er gert með því að einstaklingar skoða í grunninn hvort persónuleg gildi þeirra samræmist þeim almennu gildum sem hafa talist standa í aldanna rás svo sem heiðarleika, virðingu, hófsemi og kærleika. Það væri með því að vanda sig í því að setja sig ekki á hærri hest en annað fólk og sýna fólki virðingu þó ekki væri nema einfaldlega vegna þess að allir eru jafnmikils virði, sama hvaða störf þeir vinna, af hvaða kyni þeir eru, hvaða menntun þeir hafa, hve mikið eða lítið þeir eiga af peningum og þar fram eftir götunum. Það væri líka með því að viðurkenna breyskleika sinn, átta sig á að allir gera mistök og þegar það gerist þá er mikilvægt að viðurkenna þau, einlægt og án útúrsnúninga. Það væri með því að iðrast gjörða sinna og sýna auðmýkt þegar það er gert. Þá mætti alla vega segja að viðkomandi kunni að skammast sín... sem er betra en að kunna það ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda