Ein ráðalaus með sinn fyrrverandi

Íslenskur karl er alltaf með vesen að sögn fyrrverandi konu …
Íslenskur karl er alltaf með vesen að sögn fyrrverandi konu hans. mbl.is/Thinkstockphotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá íslenskri konu sem er að gefast upp á barnsföður sínum. 

Hæ Valdimar,

Fyrrverandi maðurinn minn er alltaf að skipta um kærustur. Við eigum börn og eru þau viku og viku hjá okkur til skiptis. Sem er bara fínt nema hvað að hann er alltaf að biðja mig um að svissa vikunum og núna vill hann fara að breyta öllu í desember og ég er bara ekkert til í það. Ég veit að ef ég geri það ekki þá mun hann hegna mér fyrir það. Fá börnin upp á móti mér.

Ég er komin á þann stað að meika ekki neitt vesen og þess vegna læt ég orðið allt eftir honum. En núna er mælirinn fullur.

Kær kveðja, HG

 

Valdimar Þór Svavarsson, fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson, fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

 

Góðan daginn HG og takk fyrir þessa hugleiðingu.

Ég skil vel að þú upplifir gremju yfir ástandinu enda mjög vond staða að þurfa að haga lífi sínu eftir duttlungum annarra vegna ótta við þeirra viðbrögð. Þetta er ekki óalgengt þegar kemur að því að takast á við verkefnin í kjölfar skilnaða þar sem börn eru til staðar. Í raun er vandinn fyrst og fremst sá að aðili eða aðilar eru ekki að virða mörk sem sett eru. Í þessu tilviki eru mörkin varðandi umgengni, að börnin eiga að vera viku hjá þér og svo viku hjá þínum fyrrverandi og báðir aðilar eiga að virða þessi mörk.

Engar reglur eru í barnaverndarlögum um hve mikil umgengni á að vera. Samningar um umgengni eru oft og tíðum munnlegir en hægt er að gera skriflegan samning og fá hann staðfestan hjá sýslumanni. Þar með er kominn möguleiki til að fara í frekari aðgerðir ef samningurinn er ekki virtur. Í öllu falli ætti að hafa hag barnanna að leiðarljósi og óskandi væri að allir hefðu mjög skýra sýn hvað það varðar. Því er ekki alltaf til að dreifa og því koma upp mál þar sem verið er að nota börnin á einhvern hátt til þess að skapa spennu og ótta eins og þú ert að upplifa.

Hvað sem öðru líður þá þarft þú að vera við stjórn í þínu lífi. Það er mjög mikilvægt að setja skýr mörk í þessum málum og halda sig við þau. Þú getur ekki stjórnað því hvað maðurinn þinn fyrrverandi gerir og ef hann ákveður að gera eitthvað sem ekki getur talist gott fyrir börnin þá getur þú leitað leiða til að vernda þeirra hagsmuni í framhaldinu. Ef þú stendur ekki við mörkin sem þú setur, þá mun hann ekki virða þau. Það getur kostað talsverða árekstra þegar verið er að setja mörk en oftar en ekki lærir fólk að virða mörk annarra á endanum. Þegar mörk eru sett er mikilvægt að ræða þau af yfirvegun í upphafi, útskýra hver mörkin eru og af hverju þau eru sett. Þá kemur það síður á óvart þegar reynir á mörkin og þú þarft að halda þeim. Það er hans ábyrgð að leysa þann tíma sem hann á að vera með börnin. Það getur hann gert með því að sýna því virðingu og vera til staðar þegar þau eru hjá honum og ef það koma upp sérstakar ástæður þá þarf hann einfaldlega að leita til aðila sem standa honum nærri og hægt er að treysta fyrir börnunum tímabundið á meðan hann þarf að sinna sínu, það er hluti af lífinu. Þetta eru oftast nánir ættingjar eða barnapíur sem geta hugsað vel um börnin. Aðalatriðið er að þú vitir að hverju þú gengur svo þú getir sjálf skipulagt þitt líf. Eins og áður sagði getur þú ekki stjórnað því hvað þinn fyrrverandi gerir eða hvort hann fari niður á það plan að reyna að fá börnin upp á móti þér. Með því að vera til staðar fyrir börnin þín og sinna þeim á kærleiksríkan hátt þegar þau eru hjá þér geta þau sjálf metið það hvað er rétt og rangt ef á það reynir.

Gangi þér allt í haginn.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda