Pabbinn er fullur á pabbahelgum

Íslensk kona hefur áhyggjur af börnunum sínum.
Íslensk kona hefur áhyggjur af börnunum sínum. mbl.is/Thinkstockphotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem skildi fyrir sex árum og hefur miklar áhyggjur af börnunum sínum. 

Sæll Valdimar,

Ég skildi fyrir sex árum og hef miklar áhyggjur af börnunum mínum sem fara núna til pabba síns aðra hvora helgi. Hann er kominn með kærustu og hélt ég að ástandið myndi batna eitthvað við það. Hann myndi sinna þeim betur ef honum liði betur með nýjum maka en það er alls ekki raunin. Málið er að börnin eru algerlega afskiptalaus þegar þau eru hjá pabba sínum. Hann og kærastan eru annaðhvort að drekka, að horfa á sjónvarpið eða í tölvunni. Börnin eru því bara lokuð af inni í herbergi og líður mjög illa. Á ég að halda áfram að senda þau til pabba síns eða á ég að reyna að stoppa þetta?

Ég óttast mjög mikið að ég sé að vinna þeim tjón með því að láta þau fara til þeirra um helgar, þótt það sé bara aðra hvora helgi. Það er mjög erfitt að senda börnin sín þangað sem þau vilja ekki vera. Svo heldur eitt barnið því fram að pabbinn og nýja kærastan séu mjög dónaleg við hana og hin systkinin taka undir það.

Mér líður svo hræðilega illa yfir þessu að ég veit ekki hvað ég á að gera. Auðvitað vil ég að börnin umgangist pabba sinn en þegar það veldur þeim svona miklum sársauka þá er ég mjög efins. Hvað finnst þér að ég ætti að gera.

Kveðja, XXX

Valdimar Þór Svavarsson, fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson, fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Góðan daginn og takk fyrir að senda þessar spurningar.

Umgengni barna er eldfimt efni sem reglulega ratar inn á borð ráðgjafa og fjölmargir hafa sent fyrirspurnir hér á Smartland í tengslum við þetta efni. Ég mæli hiklaust með að skoða fyrri spurningar og svör um þetta málefni svo að þú getir fengið betri innsýn í þá umræðu. Með því að smella HÉR getur þú skoðað eitt af þeim svörum.

Ég vil hrósa þér fyrir að leggja þig fram við að fá svör við þessum spurningum, það besta sem börn geta fengið eru foreldrar sem eru metnaðarfullir í að sinna þörfum þeirra og vernda þau fyrir óréttlæti og hvers konar ofbeldi. Það eru alltaf tvær hliðar á öllum málum og reyndar mætti segja að þær séu fleiri þegar kemur að umgengni barna. Það er hlið móður, hlið föðurins, hlið stjúpforeldra og hlið barnanna sem koma til sögunnar og allir hafa sínar meiningar um það hvernig málin ganga. Þess vegna er svo mikilvægt að ákveða einhvern punkt sem gengið er út frá, og í þessum málum er hann alltaf sá sami: Öryggi og hagsmunir barnanna eiga að ganga fyrir, við eigum að bera ábyrgð á velferð þeirra. Ef það eru ástæður til að ætla að aðstæður barna séu óásættanlegar, að þeim sé hætta búin eða beinlínis vanrækt eða beitt ofbeldi, þá er mikilvægt að bregðast við. Sem betur fer má í langflestum tilvikum segja að fólk er virkilega að gera sitt besta þegar kemur að uppeldi barna. Þar erum við eins misjöfn eins og við erum mörg. Sumir hafa fengið góða fyrirmynd varðandi uppeldi á meðan aðrir fengu slæmt uppeldi og eru jafnvel að viðhalda því af því þeir kunna ekki annað. Það er ein af ástæðum þess að það sem einum þykir fullnægjandi uppeldi og framkoma við börn, gæti öðrum þótt mjög ábótavant. Best er að sjálfsögðu ef fólk getur sest niður í ró og næði og átt yfirvegað samtal þar sem rætt er um hvað betur mætti fara í umönnun barnanna. Þetta er mjög vandasamt og reynir á að báðir aðilar geti sýnt þroska og talað saman án þess að beita ásökunum og stefna fyrst og fremst að því að bæta líf barnanna sinna og sitt eigið í leiðinni. Mörgum þykir gott að halda slíka fundi með þriðja aðila, einhverjum ótengdum aðila sem getur aðstoðað við að samtölin byggi á virðingu og fókus á að ná framförum. Þegar þessir möguleikar eru ekki til staðar, þ.e.a.s tala saman eins og fullorðið fólk og/eða að hittast sameiginlega hjá fagaðila sem getur aðstoðað við framvindu mála, þá getur næsta skref verið að leita til viðkomandi félagsþjónustu og fá aðstoð þaðan. Mörgum hrýs hugur við þeirri hugsun að leita til félagsþjónustu og mögulega barnaverndar en það er alveg óhætt að segja að í langflestum tilvikum starfar þar mjög gott fólk sem leggur sig fram við að aðstoða í krefjandi verkefnum sem þessum. Þar starfa einstaklingar með reynslu af umgengnismálum og þekkja þær reglur sem þurfa að gilda í samskiptum fólks og umönnun barna.

Vonandi nýtast þessar upplýsingar þér við að stíga næstu skref í þessari vinnu.

Kær kveðja, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda